Erlent

Rússar sagðir hafa drepið ekkju fyrsta fórnar­lambs Tsjern­obyl­slyssins

Kjartan Kjartansson skrifar
Natalía Khodimtsjúk var 73 ára þegar hún lést af sárum sínum eftir drónaárás Rússa á Kænugarð í síðustu viku. Hún missti eiginmann sinn í Tsjernobylslysinu fyrir fjörutíu árum tæpum.
Natalía Khodimtsjúk var 73 ára þegar hún lést af sárum sínum eftir drónaárás Rússa á Kænugarð í síðustu viku. Hún missti eiginmann sinn í Tsjernobylslysinu fyrir fjörutíu árum tæpum. SEZA

Ekkja fyrsta fórnarlambs versta kjarnorkuslyss sögunnar í Tsjernobyl er sögð hafa farist í drónaárásum Rússa á Kænugarð í síðustu viku. Hún hafi látist af sárum sínum eftir að íransku Shahed-dróni lenti á húsi þar sem fyrrverandi starfsmenn kjarnorkuversins búa.

Rússar gerðu harðar árásir á Kænugarð dagana 14. og 15. nóvember. Skotmörk þeirra voru meðal annars fjölbýlishús í fjölda hverfa borgarinnar.

Eitt þessara fjölbýlishúsa í Troieshchyna-hverfinu hýsti fyrrverandi starfsmenn kjarnorkuversins í Tsjernobyl og fjölskyldur þeirra. Á meðal þeirra sem særðust þar var Natalía Khodimtsjúk, ekkja Valerí Khodimtsjúk, fyrsta mannsins sem lést þegar sprenging varð í kjarnorkuverinu fyrir tæpum fjörutíu árum.

Khodimtsjúk var flutt á sjúkrahús með brunasár á 45 prósentum líkamans en lést af sárum sínum aðfararnótt 15. nóvember, að sögn úkraínskrar stofnunar sem hefur umsjón með bannsvæðinu í kringum Tsjernobyl.

„Við misstum komu sem gekk í gegnum helvíti Tsjernobyl, missti eiginmann sinn, ól upp börn, mátti þola harmleiki sem hefðu bugað hvern sem er, en ekki hana,“ segir í færslu stofnunarinnar á Facebook.

Rödd Khodimtsjúk bætist nú í hóp allrar þeirra saklausu Úkraínumanna sem Rússar hafi drepið með hryllingi sínum.

Líkamsleifarnar fundust aldrei

Eiginmaður Khodimtsjúk vann við kælibúnað kjarnorkuversins í Tsjernobyl. Hann er talinn hafa látist samstundis þegar sprenging varð í kjarnaofni fjögur 26. apríl árið 1986. Líkamsleifar hans fundust aldrei þrátt fyrir leit.

Natalía og Valerí Khodimtsjúk á góðri stundu. Þau áttu tvö börn.SEZA

Tsjernobylslysið er versta kjarnorkuslys í sögunni. Það er jafnframt aðeins annað tveggja slíkra slysa sem hafa náð hæsta stigi á alþjóðlegum skala yfir alvarleika kjarnorkuóhappa. Hitt var Fukushima-slysið eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna miklu í Japan árið 2011.

Þrátt fyrir að opinberar tölur segi að aðeins um þrjátíu manns hafi látist beint af völdum Tsjernobylslyssins er áætlað að þúsundir manna hafi látist um aldur fram vegna geislunarinnar þaðan. 

Sovésk stjórnvöld í Kreml reyndu lengi að halda slysinu og umfangi þess leyndu fyrir eigin þegnum og heimsbyggðinni. Á endanum þurftu þau að flytja hundruð þúsunda manna sem bjuggu í grennd við kjarnorkuverið burt. Bannsvæði er enn í kringum slysstaðinn nú áratugum síðar.

Kjarnaofninn sjálfur sem sprakk er nú innilokaður í mikilli steypuhvelfingu sem alþjóðasamfélagið tók þátt í að reisa. Hvelfingin skemmdist nýlega þegar rússneskur dróni sprakk á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×