Lífið

Bræðslan blásin af

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Smekkfullt var á tjaldstæðinu sumarið 2014 þegar veðrið lék við gesti.
Smekkfullt var á tjaldstæðinu sumarið 2014 þegar veðrið lék við gesti. Vísir/Kolbeinn Tumi

Aðstandendur Bræðslunnar hafa ákveðið að aflýsa hátíðinni þetta sumarið. Hún hefur farið fram árlega frá 2005 síðustu helgina í júlí. Í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar segir að þrátt fyrir að neyðarstigi Almannavarna sé aflétt í dag og samkomutakmarkanir á undanhaldi telji aðstandendur Bræðslunnar það samfélagslega skyldu sína að aflýsa Bræðslunni 2020.

„Með því viljum við afstýra allir mögulegri smithættu sem gæti falist í því að stefna saman fjölda fólks í okkar fögru heimabyggð á Borgarfirði eystra. Við munum mæta aftur sumarið 2021 með bestu Bræðslu allra tíma!“

Þrátt fyrir þetta hvetja aðstandendur fólk til að heimsækja Borgarfjörð eystra í sumar.

„Staðurinn bíður upp á frábæra hluti fyrir ferðafólk eins og skipulagðar gönguleiðir um Víknaslóðir og Dyrfjöll sem Álfheimar standa fyrir, fjölda smærri tónleika hjá Já Sæll í Fjarðarborg, veitingar hjá Álfakaffi og Blábjörgum, spa, bestu aðstöðu landsins til að skoða Lunda og svo mætti lengi telja. Fjölbreyttir gistimöguleikar eru á staðnum, frábær hótel og tjaldstæði,“ segir í tilkynningunni og vísað er á heimasíðu Borgarfjarðar eystri fyrir nánari upplýsingar.

„Að lokum til ykkar Bræðsluvinir, hjartans þakkir fyrir að vera með okkur í 15 ár, við erum alls ekki hætt og við snúum aftur sumarið 2021.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×