Erlent

Trump sakar fjölda andstæðinga sinna um glæpi og jafnvel morð

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur varið miklum tíma á Twitter síðustu daga. Þar hefur hann meðal annars sakað þáttastjórnanda um morð og fjölmarga pólitíska andstæðinga sína um allskonar glæpi. Allt frá njósnum í að spilla kosningum.

Frá því á sunnudaginn og til gærdagsins hefur forsetinn sakað minnst tuttugu manneskjur og samtök um glæpi. Hann varði fleiri tístum í þessa meintu glæpi en hann varði í faraldur nýju kórónuveirunnar.

Minnst 82.461 hefur dáið vegna faraldursins í Bandaríkjunum og tugir milljóna hafa misst vinnuna.

Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á Trump eru Barack Obama, forveri hans, sem Trump sakaði um „stærsta pólitíska glæp í sögu Bandaríkjanna“. Hann hefur ekki getað útskýrt nánar hvað hann á við að öðru leyti en að glæpurinn sé öllum augljós.

Trump beindi tístum sínum einnig að tveimur þáttastjórnendum, einum grínista, minnst fimm fyrrverandi starfsmönnum Alríkislögreglu Bandaríkjanna og Dómsmálaráðuneytisins, Kaliforníu, sjónvarpsstöð og minnst fimm embættismönnum úr ríkisstjórn Obama, samkvæmt talningu Washington Post.

Í einu tístanna sakaði hann þáttastjórnandann Joe Scarborough um morð. Hann hefur reyndar gert það áður, árið 2017, en ekkert er til í þeim ásökunum.

Aðstoarkona Scarsborough fannst látin á skrifstofu hans árið 2001. Rannsókn leiddi í ljós að hún var með óeðlilegan hjartslátt og hafði misst meðvitund. Þegar hún féll sló hún höfðinu í borð og dó þess vegna.

Trump hefur ítrekað sakað andstæðinga sína um glæpi á undanförnum árum og kallað eftir því að þeir verði rannsakaðir og jafnvel sakfelldir án dóms og laga.

Til marks um það má benda á það að þegar Michael Cohen, einkalögmaður Trump til margra ára, var dæmdur fyrir að brjóta lög varðandi fjármögnun kosningaframboða og bendlaði Trump við glæpinn, brást Trump við með að segja að yfirvöld ættu að rannsaka föður Cohen.

Hann hefur líka ítrekað sakað aðila eins og James B. Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglu Bandaríkjanna, og hina ýmsu fjölmiðla um landráð.

Trump og starfsmenn hans reyndu jafnvel að halda því fram að Nancy Pelosi hefði framið glæp þegar hún reif afrit af stefnuræðu forsetans í febrúar.

Eins og bent er á í umfjöllun Politico notar Trump ásakanir sem þessar til að draga athyglina frá sjálfum sér og ásökunum í hans garð. Þetta hefur hann gert um árabil og margar af ásökunum hans hafa beinst gegn Obama.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×