Innlent

Leigu­bíl­stjóri grunaður um stór­fellda líkams­á­rás rekinn

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Leigubílstjórinn var starfsmaður Hreyfils.
Leigubílstjórinn var starfsmaður Hreyfils. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Leigubílstjóri sem var handtekinn um helgina grunaður um alvarlega líkamsárás var starfsmaður Hreyfils. Honum var umsvifalaust sagt upp störfum.

„Stjórn Hreyfils harmar það alvarlega atvik sem átti sér stað um helgina þar sem farþegi varð fyrir ofbeldi af hálfu leigubifreiðarstjóra sem ók undir merkjum fyrirtækisins,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Hreyfils í kjölfar fyrirspurnar blaðamanns.

Leigubílstjórinn var handtekinn aðfaranótt sunnudags fyrir stórfellda líkamsárás en samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn grunaður um að hafa rifið í konuna, hent henni í jörðina og gengið í skrokk á henni.

„Um leið og atvikið komst upp var viðkomandi bílstjóri umsvifalaust rekinn af Hreyfli og brottrekstur tilkynntur til Samgöngustofu.“

Lögð er áhersla á að stjórnin telji öryggi og traust farþega afar mikilvægt. Unnið verði markvisst að því að tryggja örugga og ábyrga þjónustu.

„Í kjölfar þessa atviks mun stjórn fara í heildstæða endurskoðun á verklagi, innra eftirliti og fræðslu til bílstjóra til að tryggja áframhaldandi öryggi og fagmennsku í þjónustu félagsins,“ segir stjórnin.

Veistu meira um málið? Sendu línu á ritstjorn@visir.is eða hafðu samband á visir.is/frettaskot. Fullum trúnaði heitið.

Lýsingar á árásinna hafa verið birtar á samfélagsmiðlum og segir þar að um leigubílstjóra af erlendum uppruna sé að ræða. Hins vegar samkvæmt heimildum fréttastofu er árásarmaðurinn íslenskur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×