Erlent

Nato hafnar aðild Georgíu og Úkraínu

Atlantshafsbandalagið hefur neitað Georgíu og Úkraínu um aðild að bandalaginu, en samþykkt að endurskoða ákvörðunina varðandi þessi fyrrum Sovétlýðveldi í desember. Nato sagði einnig að það myndi ekki bjóða Macedóníu aðild vegna mótmæla Grikklands á nafni landsins.

Á leiðtogafundi Nato í Rúmeníu sem nú stendur yfir kom fram að Albaníu og Króatíu yrði hins vegar boðið að ganga til liðs við bandalagið.

Nicolas Sarkozy forseti Frakklands tilkynnti á fundinum að hundruð franskra hermanna yrðu sendir til Afganistan.

Á hliðarfundi náðu Bandarískir og tékkneskir embættismenn samkomulagi um staðsetningu eldflaugaradar á tékkneskri grundu. Rússar eru afar mótfallnir því.

George Bush Bandaríkjaforseti hafði farið fram á að Georgía og Úkraína fengu aðild að Atlantshafsbandalaginu. Frakkar og Þjóðverjar voru mótfallnir því. Þannig varð ekkert úr tillögunni þar sem aðildarlönd Nato verða öll að samþykkja ný lönd inn í bandalagið.

Embættismenn frá Makedóníu sögðu að neitunin væru gífurleg vonbrigði sem myndi hafa neikvæð áhrif á stöðugleika Balkan-skaga.

Georgískir diplómatar sögðu fyrir yfirlýsinguna að höfnun yrði sigur fyrir Rússa, sem hafa lýst yfir áhyggjum af stækkun Nato til austurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×