Íslenski boltinn

Segir að það sé kjánalegt að bíða á grænu ljósi og byrja ekki mótið 25. maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur - KR, Pepsi deild karla. Sumar 2019. Knattspyrna, fótbolti.
Valur - KR, Pepsi deild karla. Sumar 2019. Knattspyrna, fótbolti. Foto: Bára Dröfn Kristinsdóttir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri vefsins Fótbolti.net, skrifar pistil á Fótbolti.net þar sem hann veltir fyrir sér af hverju Knattspyrnusamband Íslands byrjar ekki Pepsi Max deildina í maí.

Fyrirsögnin er „Kjánalegt að bíða á grænu ljósi,“ en þar kemur fram að Pepsi Max deildin gæti byrjað 25. maí eftir að Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir tilkynnti það á fréttamannafundi í gær að næsta skref í afléttun yrði 25. maí.

„Stefnt hefur verið á að Pepsi Max-deild karla hefjist 13. júní, sem er þá tæpum þremur vikum eftir að deildin gæti í raun og veru hafist,“ skrifar Elvar Geir.

Elvar Geir spyr líka: „Til hvers að eyða bestu vikum sumarsins í að bíða eftir því að mótið hefjist þegar leyfilegt er að hefja leik og þríeykið telur það öruggt?

Það er ljóst að það er þegar orðið mánaðar seinkun á Íslandsmótinu og því gæti hver vika skipt máli til að reyna að koma öllu mótinu fyrir áður en veturinn færist yfir.

„Það er augljóst að því fyrr sem hægt er að byrja því betra er það fyrir mótið. Við þurfum þá ekki að teygja okkur eins langt inn í veturinn og ef það koma bakslög þá verður svigrúmið meira,“ skrifar Elvar Geir.

Hann veltir líka fyrir sér hvort að KSÍ ætli að tilkynna um breytingar á upphafi Íslandsmótsins í dag þegar sambandið heldur upplýsingafund fyrir fjölmiðla vegna leikjaniðurröðunar sumarsins.

„Ég vona að þar verði tilkynnt að leikjadagskráin verði færð framar, þó ekki sé nema sé um viku að ræða,“ skrifar Elvar Geir en það má lesa allan pistil Elvars hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.