Erlent

2.500 á lista týndra á Bahama

Samúel Karl Ólason skrifar
Dorian lék íbúa eyjanna Grand Bahama og Abaco sérstaklega illa.
Dorian lék íbúa eyjanna Grand Bahama og Abaco sérstaklega illa. AP/Ramon Espinosa
Ríkisstjórn Bahama-eyja segir 2.500 manns á lista þeirra sem saknað er eftir að fellibylurinn Dorian fór yfir eyjarnar. Ekki er þó búið að bera listann saman við nöfn þeirra sem hafa verið fluttir af eyjunum eða halda til í neyðarskýlum og því þykir víst að fækka muni á listanum og það mikið.

Minnst 50 eru látnir og er búist við því þeim muni fjölga en björgunaraðilar eru enn að leita í rústum húsa og braki sem liggur á víð og dreif um eyjarnar.

Dorian lék íbúa eyjanna Grand Bahama og Abaco sérstaklega illa. Þegar fellibylurinn náði landi jafnaði hann mesta vindstyrk sem mælst hefur í fellibyl sem náð hefur landi. Rafmagni hefur að mestu verið komið á aftur á Grand Bahama en samkvæmt AP fréttaveitunni eru dreifikerfi við og í borginni Marsh Harbour á Abaco gerónýt.



Tugir þúsunda þurfa enn á aðstoða að halda og á umfangsmikið hjálparstarf sér stað á Bahama. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórn eyjanna gert það ljóst að ferðamenn eru enn velkomnir á flestar eyjur eyjaklasans. Í raun sé mikil þörf á þeim.

Ferðaþjónusta er mikilvægur liður í tekjuöflun íbúa og ríkisstjórnar eyjanna og ljóst er að endurbygging á Grand Bahama og Abaco mun taka langan tíma og verða verulega kostnaðarsöm. Ellison Thompson, aðstoðarferðamálaráðherra, sagði Washington Post að ferðamenn væru þegar byrjaðir að afpanta ferðir og það gæti haft veruleg áhrif á efnahag eyjanna.

 


Tengdar fréttir

Dag­bjartur kemur að endur­reisn sam­fé­lags á Bahama­eyjum

Við vinnum þetta allt í sameiningu, það skiptir okkur engu máli hvaða nafn er á skyrtunni ef svo mætti segja. Þegar kemur að þessu eru allir bara í sama liði og menn sem eru að vinna á svipuðu sviði eru bara að hjálpast að og styðja við hvorn annan, segir Dagbjartur Kr. Brynjarsson, viðbragðsaðili á vegum NetHope á Bahamaeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×