Hræðileg meiðsli Gomes í dramatísku jafntefli á Goodison

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Viðbrögð allra á vellinum gáfu strax til kynna að um alvarleg meiðsli væri að ræða
Viðbrögð allra á vellinum gáfu strax til kynna að um alvarleg meiðsli væri að ræða vísir/getty
Everton náði í jafntefli gegn Tottenham seint í uppbótartíma eftir að Andre Gomes var borinn út af á börum eftir hrikaleg meiðsli.

Leikurinn á Goodison Park hafði verið frekar tíðindalaus í hálfleik en það var nóg um að gera í þeim seinni.

Það fór mikið fyrir myndbandsdómaranum sem neitaði báðum liðum um vítaspyrnu. Báðar ákvarðanirnar tóku langan tíma og var mikil óánægja með myndbandsdómgæsluna í leiknum.

Dele Alli kom Tottenham yfir á 63. mínútu eftir að Alex Iwobi tapaði boltanum illa. Alli fékk boltann frá Son Heung-min og skoraði framhjá Jordan Pickford.

Á 80. mínútu átti sér stað hrikalegt atvik. Son Heung-min fer í tæklingu á Andre Gomes og Gomes féll illa til jarðar og virtist hafa stórslasað sig.

Það var strax ljóst að meiðslin voru slæm því engar endursýningar voru sýndar af atvikinu og það tók augljóslega á leikmenn. Dómari leiksins ákvað að gefa Son rautt spjald fyrir brotið og hann fór grátandi af velli.

Eftir allt sem á hafði gengið var miklu bætt við í lok venjulegs leiktíma og á áttundu mínútu uppbótartímans náði Cenk Tosun að jafna metin fyrir Everton.

Lucas Digne náði fyrirgjöfinni ínn í teiginn þar sem Tosun var mættur og skallaði í netið.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli, fótboltagæði leiksins ekki mikil en mikið um dramatík í seinni hálfleik og aftur setur myndbandsdómgæslan sinn svip á leikinn.

Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði leikinn á bekknum en hann kom inn fyrir Gomes þegar sá síðarnefndi meiddist.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira