Erlent

Trump sagður hafa áhuga á því að Bandaríkin kaupi Grænland

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump ræðir við Lars Løkke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra Danmerkur, árið 2017.
Donald Trump ræðir við Lars Løkke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra Danmerkur, árið 2017. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa augastað á kaupum á Grænlandi fyrir hönd bandaríska ríkisins. Þetta herma heimildarmenn Wall Street Journal.

Í frétt blaðsins er því haldið fram að Trump hafi ítrekað og við fjölmörg tækifæri spurt ráðgjafa sína út í möguleikann á því hvort Bandaríkin geti keypt Grænland. Er hann sagður hafa hlustað af áhuga þegar ráðgjafar hans ræða hversu ríkt Grænland er af auðlindum og hversu hernaðarlega mikilvægt það sé bandarískum hagsmunum.

Tveir heimildarmenn blaðsins segja að Trump hafi gengið svo langt að fela lögfræðiráðgjafa Hvíta hússins að kanna möguleikann á kaupunum.

Þá segir einnig í frétt blaðins að sumir ráðgjafar segja að hugmyndin sé góð, á meðan aðrir telji hugmyndina fjarstæðukennda sem eigi aldrei neina möguleika á því að verða að veruleika. Þá liggur ekki fyrir hvernig Bandaríkin myndu fara að því að ganga frá kaupunum, enda viðbúið að það yrði afskaplega flókið. Og dýrt.

Frá Sisimiut á vesturströnd Grænlands.Vísir/Getty
Grænland er sem kunnugt er sjálfsstjórnarsvæði innan dönsku krúnunnar, en landið hlaut sjálfsstjórn árið 1979. Frá því hafa aukin völd yfir málefnum Grænlands smátt og smátt færst frá Danmörku yfir til heimamanna. Danmörk fer þó enn með utanríkis- og varnarmál fyrir hönd Grænlendinga.

Fundar með forsætisráðherra Grænlands í Kaupmannahöfn í september

Bandarísk yfirvöld líta svo á að Grænland sé hernaðarlega mjög mikilvægt fyrir hagsmuni Bandaríkjanna og eru hernaðarumsvif Bandaríkjahers töluverð á Grænlandi í tengslum við Thule-herstöðina.

Í frétt Wall Street Journal segir að Hvíta húsið, bandaríska utanríkisráðuneytið, danska sendiráðið í Bandaríkjunum sem og talsmenn dönsku konungsfjölskyldunnar hafi ekki svarað fyrirspurnum blaðsins um málið. Þá hafi hvorki fulltrúi Grænlands í Washington né talsmaður forsætisráðherra Grænlands svarað fyrirspurnum um málið.

Ráðgert er að Trump fundi með forystumönnum Grænlendinga í Kaupmannahöfn í byrjun september þegar hann kemur við í Danmörku eftir heimsókn til Póllands. Spurning er hvort mögulega landakaup Bandaríkjanna beri á góma við það tækifæri.


Tengdar fréttir

Trump-fundur beinir kastljósi umheimsins að norðurslóðum

Væntanlegur fundur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta með leiðtogum Grænlands og Færeyja sýnir aukinn áhuga stórveldanna á Norðurskautinu og Norður-Atlantshafi, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.