Erlent

Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Króatíu dæmdur fyrir spillingu á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Ivo Sanader gegndi embætti forsætisráðherra Króatíu á árunum 2003 til 2009.
Ivo Sanader gegndi embætti forsætisráðherra Króatíu á árunum 2003 til 2009. Getty

Dómstóll í Króatíu dæmdi í morgun Ivo Sanader í sex ára fangelsi fyrir að hafa þegið mútur frá yfirmanni hjá ungverska orkufélaginu MOL. Í skiptum fyrir múturnar fékk MOL ítök í króatíska ríkisorkufélaginu INA.

Í dómnum kemur fram að mútugreiðslurnar hafi átt sér stað árið 2008, skömmu áður en Sanader lét af störfum sem forsætisráðherra. Hann tók við embættinu árið 2003.

Frá því að Sanader lét af embætti hefur hann ítrekað hlotið dóm fyrir spillingu. Árið 2014 hlaut hann átta og hálfs árs fangelsisdóm vegna MOL-málsins en var sleppt ári síðar eftir að stjórnlagadómstóll landsins ógilti dóminn vegna gallaðrar málsmeðferðar.

Sanader var fangelsaður í apríl síðastliðinn eftir að hafa hlotið sex ára fangelsisdóm í máli þar sem sneri að því að hann hafði selt stjórnvöldum fasteign á verði langt yfir markaðsverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×