Sport

Þriðji kraftlyftingamaðurinn sem er valinn íþróttamaður ársins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Júlían hafði ekki mikið fyrir því að lyfta bikarnum góða.
Júlían hafði ekki mikið fyrir því að lyfta bikarnum góða. mynd/ísí

Júlían J. K. Jóhannsson er þriðji kraftlyftingamaðurinn sem er valinn íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna. Tæp 40 ár eru síðan kraflyftingamaður fékk þessa nafnbót.

Valið var kunngjört á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í gær. Júlían fékk 378 stig í kjörinu, 43 stigum meira en körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson.

Júlían fylgdi þar með í fótspor kraftlyftingamannanna Skúla Óskarssonar og Jóns Páls Sigmarssonar. Skúli var valinn íþróttamaður ársins 1978 og 1980 og Jón Páll 1981.

Kraftlyftingamenn fengu því nafnbótina íþróttamaður ársins þrisvar sinnum á fjórum árum. Þeir þurftu svo að bíða í 38 ár eftir að sá næsti fengi nafnbótina.

Júlían er 26 ára, fæddur 1993, sama ár og Jón Páll lést, aðeins 32 ára.

Árið 2019 var frábært hjá Júlían. Hann bætti eigið heimsmet í réttstöðulyftu í +120 kg flokki á HM í kraftlyftingum í Dubai og fékk bronsverðlaunin í samanlögðum árangri á sama móti.

Júlían sigraði í réttstöðulyftu á EM og hlaut silfurverðlaun í samanlögðu á mótinu. Hann er í þriðja sæti heimslistans í sínum þyngdarflokki.

Júlían hefur þrisvar sinnum verið á meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins. Árið 2016 var hann í 7. sæti og í fyrra var hann í 2. sæti.

Skúli Óskarsson var tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ 2017.vísir/ernir
Jón Páll vann keppnina um sterkasta mann heims fjórum sinnum.mynd/ljósmyndasafn reykjavíkur

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×