Enski boltinn

Manchester City menn öskureiðir vegna baktjaldamakks Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta við hlið Pep Guardiola á varamannabekk Manchester City í gær.
Mikel Arteta við hlið Pep Guardiola á varamannabekk Manchester City í gær. Getty/Robin Jones

Mikel Arteta var á varamannabekk Manchester City í gær þegar liðið sló Oxford United út enska deildabikarnum en á sama tíma voru lögfræðingar hans sagðir vera að ganga frá nýjum samningi við Arsenal. Forráðamenn Manchester City eru víst allt annað en sáttir með það.

Guardian segir frá þessari reiði Manchester City manna sem vilja þó ekki standa í vegi fyrir að Mikel Arteta fá þetta stóra tækifæri. Arsenal á hins vegar eftir að ganga frá „kaupum“ á Mikel Arteta sem er enn starfsmaður Manchester City.

Framganga lögfræðinganna og þetta baktjaldamakk Arsenal hefur vakið upp mikla reiði hjá Manchester City.  



„Það kemur mikið á óvart að heyra af því að Arsenal sé með plön um að kynna okkar þjálfara sem þeirra nýja knattspyrnustjóra á föstudaginn vegna þess að þeir hafa ekkert haft samnband við okkar félag,“ hefur Fabrizio Romano, blaðamaður Guardian, eftir heimildarmanni sínum hjá Manchester City.

Pep Guardiola neitaði að ræða framtíð Mikel Arteta eftir sigurinn á Oxford United í gærkvöldi. „Ég mun svara þegar það eru einhverjar fréttir en það eru engar fréttir af þessu máli,“ sagði Pep Guardiola.



Arsène Wenger styður þessa ráðningu Arsenal á Mikel Arteta en ráðleggur honum að velja teymið sitt vel. „Ég trúi því að Arteta eigi frábæra framtíð í þessu starfi. Hann hefur þegar lært mikið sem aðstoðarmaður Guardiola en hann þarf bæði meiri reynslu og að velja mennina vel í kringum sig,“ sagði Arsène Wenger.

Mikel Arteta er 37 ára gamall og hefur verið aðstoðarmaður Pep Guardiola frá árinu 2016. Arteta lék síðustu fimm ár ferilsins hjá Arsenal eða frá 2011 til 2016 en þar áður var hann hjá Evertin í sex ár (2005-11).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×