Enski boltinn

Minamino staðfestur sem nýr leikmaður Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Takumi Minamino í búningi Liverpool.
Takumi Minamino í búningi Liverpool. Getty/Nick Taylor

Japaninn Takumi Minamino verður leikmaður Liverpool þegar félagsskiptaglugginn opnar á Nýársdag en þetta var endanlega gulltryggt eftir að leikmaðurinn stóðst læknisskoðun.

Telegraph segir að Minamino hafi bæði staðist umrædda læknisskoðun og jafnframt gengið frá samningi sínum við Liverpool.

Minamino mun gera fjögurra og hálfs árs samning eða samning fram á sumar 2024. Liverpool mun kaupa upp samning hans hjá Red Bull Salzburg og borgar því „bara“ 7,25 milljónir punda fyrir hann eða um 897 milljónir íslenskra króna.



Ekkert kemur því lengur í veg fyrir að Minamino verði leikmaður Liverpool 1. janúar 2020 en félagið hefur staðfest kaupin á honum. Hann var líka kominn í Liverpool gallann á samfélagsmiðlum Liverpool.

Þegar Jürgen Klopp var spurður út í komu Takumi Minamino á blaðamannafundi út í Katar svaraði hann því að hann vildi óska þess að hann væri með hann hjá sér núna.



Liverpool hefur fylgst með leikmanninum í heil sex ár en áhugi félagsins hefur þó tekið mikið stökk á síðustu tólf mánuðum þar sem Takumi Minamino hefur farið á kostum með Red Bull Salzburg.

Takumi Minamino gæti spilað sinn fyrsta leik þegar Liverpool mætir Everton í ensku bikarkeppninni í byrjun ársins en hollenski miðvörðurinn Virgil van Dijk spilaði einmitt fyrsta leik sinn í janúar á móti Everton í bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×