Erlent

Núverandi starfsmaður Hvíta hússins ber vitni

Samúel Karl Ólason skrifar
Offurstinn verður fyrsti núverandi starfsmaður Hvíta hússins sem mun bera vitni vegna rannsóknar Demókrata.
Offurstinn verður fyrsti núverandi starfsmaður Hvíta hússins sem mun bera vitni vegna rannsóknar Demókrata. AP/Kevin Wolf
Offurstinn Alexander Vindman, sem situr í þjóðaröryggisráði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, lýsti tvisvar sinnum yfir áhyggjum vegna viðleitni ríkisstjórnar Trump og utanaðkomandi aðila sem tengjast Trump til að fá yfirvöld Úkraínu til að rannsaka pólitískan andstæðing forsetans. Vindman mun bera vitni í dag vegna rannsóknar Demókrata í fulltrúadeild þingsins á mögulegum embættisbrotum Trump.

Vindman mun, samkvæmt upphafsyfirlýsingu hans, segja að hann hlustaði á umdeilt símtal Trump og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, þann 25. júlí sem er miðpunktur rannsóknar Demókrata, og fór í kjölfarið til yfirlögmanns þjóðaröryggisráðsins og lýsti yfir áhyggjum sínum.

AP fréttaveitan hefur komið höndum yfir yfirlýsinguna sem hann mun lesa í upphafi yfirheyrslunnar í dag. Þar ætlar Vindman að segja að honum hafi ekki þótt við hæfi að forsetinn hafi krafist þess að erlend ríkisstjórn ætti að rannsaka bandarískan ríkisborgara. Þar að auki hafði hann áhyggjur af því hvað slíkt myndi þýða fyrir stuðning Bandaríkjanna við Úkraínumenn.



„Ég áttaði mig á því að ef Úkraínumenn framkvæmdu rannsókn gagnvart Biden-feðgunum og Burisma, yrði það túlkað sem pólitísk aðgerð og án efa myndi það leiða til þess að stuðningurinn gagnvart Úkraínu myndi tapa stuðningi beggja flokka Bandaríkjanna. Það myndi grafa undan þjóðaröryggi Bandaríkjanna,“ mun Vindman segja.

Sagði málið ekki koma þjóðaröryggi við

Áður hafði hann þó sömuleiðis lýst yfir áhyggjum sínum varðandi Úkraínu þegar Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna, gagnvart Evrópusambandinu, ítrekaði á fundi þjóðaröryggisráðsins þann 10. júlí hve mikilvægt það væri að Úkraínumenn rannsökuðu Biden og aðkomu yfirvalda Úkraínu að forsetakosningunum 2016. Vindman heldur því fram að hann hafi sagt Sondland að ummæli hans væru óviðeigandi og að krafan um að Úkraínumenn rannsökuðu Biden kæmu þjóðaröryggi og þar með þjóðaröryggisráðinu ekkert við.

Offurstinn verður fyrsti núverandi starfsmaður Hvíta hússins sem mun bera vitni vegna rannsóknar Demókrata. Hann segist ekki vera uppljóstrarinn sem sendi formlega uppljóstrarakvörtun sem leiddi til þess að Demókratar hófu rannsókn sína og Vindman segist sömuleiðis ekki vita hver uppljóstrarinn er.

Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu.AP/Virginia Mayo

Tvær samsæriskenningar ráða för

Viðleitni Trump-liða til að þvinga Úkraínu til að rannsaka Biden og kosningarnar snýr að tveimur samsæriskenningum.

Trump og bandamenn hans hafa reynt að fá Úkraínumenn til að rannsaka þá samsæriskenningu að tölvuárásin gegn Landsnefnd Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna 2016 hafi verið sviðsett til að koma sök á Rússa og vefþjónn Landsnefndarinnar sé í Úkraínu.

Fyrirtækið Crowdstrike komst á snoðir um tölvuárásina og stöðvaði hana. Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu útsendara Rússlands hafa gert árásina og Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, staðfesti það seinna meir.

Markmið Trump með þessum ásökunum virðist vera að grafa undan Rússarannsókninni svokölluðu. Í símtali sínu við Zelensky vísaði Trump til vefþjónsins og bað hann um að komast til botns í málinu.

Þá vilja Trump-liðar að Úkraínumenn rannsaki Joe Biden, sem þykir hvað líklegastur til að hljóta tilnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári, og son hans Hunter Biden.

Joe Biden, þáverandi varaforseti Bandaríkjanna, þrýsti á stjórnvöld Úkraínu um að koma Viktor Shokin, þáverandi ríkissaksóknara, úr embætti vegna þess að hann þótti ekki berjast gegn spillingu af nægilega miklum krafti og var jafnvel sjálfur sakaður um spillingu.

Ríkisstjórnir nokkurra ríkja og forsvarsmenn stofnanna sem aðstoðuðu Úkraínu á þessum tíma með fjárveitingum og öðrum hætti vildu Shokin burt. Biden hafði farið til Úkraínu í desember 2015 og í ræðu á þingi landsins kallaði hann eftir brottrekstri Shokin.

Honum var vikið úr starfi í mars 2016 með miklum meirihluta á þingi Úkraínu.

Trump liðar hafa sakað Biden um að þvinga Shokin úr embætti með því markmiði að verja son sinn, Hunter Biden, sem þá var í stjórn úkraínska orkufyrirtækisins Burisma Holdings. Nokkrum árum áður hafði verið opnuð rannsókn á mögulegu fjárþvætti eiganda fyrirtækisins.

Það eru engar vísbendingar um að Joe Biden, né Hunter, hafi gert nokkuð saknæmt og ekki er víst hvort að Hunter hafi yfir höfuð verið til rannsóknar. Biden var að framfylgja utanríkisstefnu Bandaríkjanna sem sendiboði Barack Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna, yfir margra mánaða skeið.

Þá segja embættismenn í Úkraínu að rannsóknin gagnvart Burkima hafi verið stöðvuð af Shokin sjálfum, áður en Biden fór að kalla eftir brottrekstri hans.

Framburður Vindman er ekki í samræmi við framburð Sondland sem hélt því fram við yfirheyrslu að enginn meðlimir þjóðaröryggisráðsins hafi lýst yfir áhyggjum vegna Úkraínumálsins. Sondland sagðist sömuleiðis ekki hafa gert sér grein fyrir því að einhver tenging væri á milli Biden og Burisma.


Tengdar fréttir

Greiða atkvæði í þinginu um rannsókn Demókrata

Greidd verða atkvæði um rannsókn Demókrata á hugsanlegum embættisbrotum Donald Trump í samskiptum sínum við úkraínsk stjórnvöld fyrr á árinu í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×