Innlent

Á­kveðið að heilsu­gæslu­stöðvar á Akur­eyri verði tvær

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Heilsugæslan á Akureyri er í gömlu húsnæði.
Heilsugæslan á Akureyri er í gömlu húsnæði. Fréttablaðið/Auðunn
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að við endurnýjun húsnæðis fyrir heilsugæsluþjónustu á Akureyri verði gert ráð fyrir tveimur starfsstöðvum heilsugæslu í bænum, fremur en einni líkt og nú er.Á vef Stjórnarráðsins segir að þetta sé í samræmi við vilja stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og tillögu ráðgjafafyrirtækis sem vann skýrslu um húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri fyrir stofnunina í lok síðasta árs.Miðað er við að auglýst verði eftir húsnæði fyrir stöðvarnar tvær í byrjun næsta árs. Heilsugæslan á Akureyri er rekin í gömlu húsnæði í Hafnarstræti sem þykir ófullnægjandi og ekki standast nútímakröfur, hvorki varðandi aðgengi né aðbúnað starfsfólks eða notenda þjónustunnar.Þannig er aðkoman að heilsugæslunni annars vegar frá Göngugötunni svokölluðu í miðbæ Akureyrar eða frá Gilsbakkaveg og Oddagötu, tveimur bröttum götum sem geta verið illfærar á veturna vegna hálku.Rétt rúmlega tuttugu þúsund manns eru skráðir á stöðina og eru það umtalsvert fleiri einstaklingar en að jafnaði eru skráðir við heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.„Það er löngu tímabært að færa heilsugæsluþjónustuna á Akureyri í fullnægjandi húsnæði. Stjórnvöld leggja áherslu á að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem aðgengi er gott og þjónustan þverfagleg. Aðlaðandi starfsumhverfi sem mætir vel þörfum starfsfólks og notenda skiptir máli í því samhengi,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, á vef Stjórnarráðsins.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.