Innlent

Á­kveðið að heilsu­gæslu­stöðvar á Akur­eyri verði tvær

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Heilsugæslan á Akureyri er í gömlu húsnæði.
Heilsugæslan á Akureyri er í gömlu húsnæði. Fréttablaðið/Auðunn

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að við endurnýjun húsnæðis fyrir heilsugæsluþjónustu á Akureyri verði gert ráð fyrir tveimur starfsstöðvum heilsugæslu í bænum, fremur en einni líkt og nú er.

Á vef Stjórnarráðsins segir að þetta sé í samræmi við vilja stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og tillögu ráðgjafafyrirtækis sem vann skýrslu um húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri fyrir stofnunina í lok síðasta árs.

Miðað er við að auglýst verði eftir húsnæði fyrir stöðvarnar tvær í byrjun næsta árs. Heilsugæslan á Akureyri er rekin í gömlu húsnæði í Hafnarstræti sem þykir ófullnægjandi og ekki standast nútímakröfur, hvorki varðandi aðgengi né aðbúnað starfsfólks eða notenda þjónustunnar.

Þannig er aðkoman að heilsugæslunni annars vegar frá Göngugötunni svokölluðu í miðbæ Akureyrar eða frá Gilsbakkaveg og Oddagötu, tveimur bröttum götum sem geta verið illfærar á veturna vegna hálku.

Rétt rúmlega tuttugu þúsund manns eru skráðir á stöðina og eru það umtalsvert fleiri einstaklingar en að jafnaði eru skráðir við heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

„Það er löngu tímabært að færa heilsugæsluþjónustuna á Akureyri í fullnægjandi húsnæði. Stjórnvöld leggja áherslu á að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem aðgengi er gott og þjónustan þverfagleg. Aðlaðandi starfsumhverfi sem mætir vel þörfum starfsfólks og notenda skiptir máli í því samhengi,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, á vef Stjórnarráðsins.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.