Tónlist

Úthúða íslenskum röppurum í rokkslagara hvunndagshetjunnar

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Axel segir frá því í laginu hvernig hann lærði ungur að slamma, hlusta á rokk og ról, reykja sígó og djamma.
Axel segir frá því í laginu hvernig hann lærði ungur að slamma, hlusta á rokk og ról, reykja sígó og djamma. skjáskot
„Íslenskir rokkarar, þeir eru hvunndagshetjur samtímans. Íslenskir rapparar, fokking étiði skít.“ Svo hljómar viðlag nýs lags bílskúrsrokkhljómsveitarinnar Pink Street Boys, Hvunndagshetjur, sem kemur út í dag.

Von er á nýrri plötu frá sveitinni í lok október, sem ber titilinn Heiglar og kemur út hjá útgáfuhluta plötubúðarinnar Reykjavík Records.

Bleikgötudrengirnir hafa einmitt verið að gera upp við sig hvort þeir eigi þegar fram líða stundir að breyta nafni sveitarinnar í annað hvort Heiglar eða Fautar. Nú er ljóst að Heigla-nafnið hefur verið nýtt í annað.

Í samtali við Vísi segir gítarleikari sveitarinnar, Jónbjörn Birgisson, eða Jómbi, að ákveðið sé að sveitin muni gefa út tvær plötur til viðbótar við þessa. Því næst muni þeir breyta nafninu í Fautar.

„Þá verðum við allir komnir með tinnitus. Þá ætlum við að róa okkur niður og gera kántrý.“

Klippa: Pink Street Boys - Hvunndagshetjur
Aðspurður hvað þeir hafi á móti íslenskum röppurum hefur Jómbi fátt að segja fyrst um sinn.

„Sjitt, þung spurning. Tja, við fílum Móra.“ Þess má geta að Jómbi gerði eitt sinn tónlistarmyndband fyrir rapparann grasgræna.

„Neinei við erum ekkert á móti þeim, við erum bara öfundsjúkir. Þeim gengur svo vel,“ bætir hann við.

En hvers vegna eru íslenskir rokkarar hvunndagshetjur samtímans?

„Þeir halda áfram að rokka þó svo að þeir séu ekki að fá neitt til baka,“ svarar Jómbi um hæl. „Rokk er bara frekar asnalegt í dag. Fólk fílar það ekki, allavega ekki almúginn.“

Hann telur rokkið þó ekki dautt úr öllum æðum. „Þetta fer allt í bylgjum.“

Axel Björnsson, Einar Björn Þórarinsson og Jónbjörn Birgisson í myndbandinu.skjáskot
Axel Björnsson, söngvari og gítarleikari sveitarinnar, fer með aðalhlutverkið í myndbandinu við Hvunndagshetjur. „Hann er algjör villimaður í þessu, hann er náttúrulega að austan,“ segir Jómbi.

„Axel klippti vídjóið. Þeir voru bara svo ógeðslega pumped í þetta, gerðu þetta á einu kvöldi.“

Textar plöturnar eru líkt og titill hennar allir á íslensku, en sveitin hefur nánast einvörðungu sungið á ensku hingað til. „Já, er þetta ekki fyrsta rokkplatan sem er öll á íslensku?,“ spyr Jómbi kaldhæðnislega þegar hann er spurður út í tilefni tungumálabreytingarinnar. „Þetta hljóta að vera einhver tímamót. Við ætlum að flytja rokkið yfir á íslensku.“

Alfreð Óskarsson tambúrínusérfræðingur ásamt Jónbirni Birgissyni.aðsend
Nafnið Pink Street Boys vísar til Bleikgötu í Smiðjuhverfi í Kópavogi þar sem æfingahúsnæði og stúdíó sveitarinnar er til húsa. Þar hafa þeir haldið sig síðan 2006, en á þeim tíma léku þeir sýrurokk undir nafninu The Dandelion Seeds.

Platan var tekin upp á Bleikgötu með aðstoð Guðlaugs Halldórs Einarssonar og Kára Guðmundssonar, en sá fyrrnefndi hefur gert garðinn frægan með sveitum á borð við Fufanu, russian.girls og Skröttum. Listamaðurinn fjölhæfi Curver Thoroddsen sá svo um masteringu.

Einnig má minnast á að fjórir af sex meðlimum Pink Street Boys voru undirleikarar á tónleikum Singapore Sling í ágúst, bæði hér á landi og á Fuzz Club Eindhoven tónlistarhátíðinni í Hollandi.


Tengdar fréttir

Gestir mæti með eyrnatappa

Pink Street Boys, Godchilla, Kvöl og Lord Pusswhip halda háværa tónleika í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×