Innlent

Vara við vatnavöxtum og skriðuföllum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Draga mun úr úrkomu á Austurlandi síðdegis. Svona lítur úrkomuspáin út klukkan 14.
Draga mun úr úrkomu á Austurlandi síðdegis. Svona lítur úrkomuspáin út klukkan 14. Skjáskot/veðurstofa íslands
Áfram er gert ráð fyrir talsverðri úrkomu á Austfjörðum og Suðausturlandi í dag, þriðjudag, með tilheyrandi vatnavöxtum og hættu á skriðuföllum. Gular viðvaranir Veðurstofu eru í gildi á svæðunum fram yfir hádegi í dag en draga mun úr úrkomu síðdegis, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að mest hafi rignt 106,7 mm á Neskaupsstað í hinum miklu rigningum síðasta sólarhringinn.

„Annars er útlit fyrir norðaustan 8-15 m/s á landinu og rigningu með norðurströndinni en úrkomulítið sunnan- og vestantil á landinu. Hiti 5 til 13 stig. Austlægar áttir munu svo ráða ríkjum á landinu fram yfir helgi með kólnandi veðri. Vætusamt verður norðan- og austantil í vikunni en úrkomuminna um helgina,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Norðaustan 8-13 m/s og súld eða rigning með köflum norðan- og austantil, en yfirleitt léttskýjað sunnan- og vestanlands. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.

Á fimmtudag:

Norðaustan 8-13 m/s, súld eða rigning á Vestfjörðum en rigning, jafnvel talsverð, norðan- og austantil. Líkur á slyddu eða snjókomu til fjalla um kvöldið. Bjart með köflum sunnan- og vestanlands. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.

Á föstudag:

Norðaustan 5-10 m/s og skýjað með köflum, en dálítil rigning með norðurströndinni og snjókoma til fjalla. Hiti 1 til 7 stig.

Á laugardag og sunnudag:

Austlæg átt og bjartviðri, en lengst af skýjað og dálítil úrkoma af og til á norðaustanverðu landinu. Hiti 1 til 6 stig að deginum.

Á mánudag:

Austlæg átt og rigning austan- og suðaustantil en annars bjart með köflum og úrkomulaust. Hlýnar lítið eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×