Menning

Verður sjálfur ekki á hátíðinni í holdinu en mjög nálægur í andanum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Haraldur segir gjörninginn Þröng fela í sér þátttöku gesta.
Haraldur segir gjörninginn Þröng fela í sér þátttöku gesta.

Fjölbreyttir gjörningar og leikhústengd verk af öllum toga eru á A! Gjörningahátíð sem opnuð verður á Akureyri á morgun, 10. október. Hún stendur fram á sunnudag. Þetta er alþjóðleg hátíð sem haldin er árlega, nú í fimmta sinn. Hátt í 2.000 gestir hafa sótt hana heim hverju sinni. Ókeypis er inn á alla viðburði hennar.

Einn þeirra sem verk eiga á hátíðinni er Haraldur Jónsson myndlistarmaður, sem býr í borginni. Hann á ekki heimangengt og segir þetta verða í fyrsta skipti sem hann sé ekki viðstaddur opnun á eigin verkum. „Gjörningurinn minn nefnist Þröng. Ég treysti þeim fyrir norðan til að setja hann rétt upp og vona að hann komi vel út. Þó ég verði ekki sjálfur á hátíðinni í holdinu verð ég mjög nálægur í andanum.“

Fylgir samt ekki gjörningum alltaf eitthvað sem gerist á staðnum? „Jú, gjörningur fer fram í tíma og rúmi og inniheldur mjög gjarnan hreyfingu og einhvers konar stefnumót við áhorfendur. Grunnmunurinn á gjörningi og leiklist er að gjörningurinn skapar ástand en honum fylgir ekki frásaga, hann er meira í ætt við athöfn, eða ritúal.“

 Haraldur segir um frumflutning að ræða á verkinu Þröng og það feli í sér þátttöku gesta. „Þröng er nokkurs konar afsprengi yfirlitssýningar minnar á Kjarvalsstöðum fyrir ári. Hún stóð í þrjá mánuði og ég var alltaf með gjörninga síðdegis á laugardögum. Það var mjög gaman og það má segja að fræi að þessum gjörningi hafi verið sáð þá. Verkin mín hafa samt, alveg frá upphafi, gjarnan haft einhverja umbreytingu í sér, þannig að Þröng er angi af þeirri stefnu.“

A! Gjörningahátíð er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Menningarhússins Hofs, Leikfélags Akureyrar, LÓKAL alþjóðlegrar leiklistarhátíðar, Gilfélagsins og Heim-vídeólistahátíðar.

Samhliða A! fer vídeólistahátíðin Heim fram.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.