Bíó og sjónvarp

Baldvin Z með nýja glæpaseríu

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Baldvin situr sveittur við skriftir.
Baldvin situr sveittur við skriftir. Fréttablaðið/Anton.

Baldvin Z leikstýrir nýrri glæpaseríu sem mun heita Svörtu sandar. Stöð 2 og framleiðslufyrirtækið Glassriver undirrituðu samning um framleiðslu hennar og gamanseríunnar Magaluf.

Baldvin segir að stefnt sé að því að serían verði sýnd í lok árs 2021. „Þetta verður eins mikill krimmi og hægt er.“ Hugmyndin kom frá Ragnari Jónssyni en Aldís Hamilton og Andri Óttarsson koma einnig að skrifunum. Baldvin segir að grunnurinn að sögunni sé þegar til en nú sé unnið að útfærslum á handritinu.

„Ragnar er rannsóknarlögreglumaður og blóðferlafræðingur, einn af okkar fremstu á Íslandi,“ segir Baldvin. „Vegna hans er innsýn okkar inn í þennan heim einstök. Við stillum þessu upp á mjög raunsæjan hátt.“

Svörtu sandar fjallar um unga lögreglukonu sem rannsakar dauðsfall ferðamanns. Baldvin segir að þegar sé búið að ræða um aðalleikara en gefur ekkert upp.

Baldvin er þekktastur fyrir kvikmyndirnar Lof mér að falla frá árinu 2018 og Vonarstræti frá 2014.

Magaluf er gamanþáttaröð í leikstjórn Magnúsar Leifssonar og gerist árið 1979. Í aðalhlutverki verður Steindi Jr. sem leikur plötusnúð á skemmtistaðnum Hollywood sem gerist fararstjóri í Spánarferð til að endurheimta æskuástina. Ragnar Bragason skrifaði handritið ásamt Magnúsi og Snjólaugu Lúðvíksdóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×