Erlent

Sváfu á verðinum þegar Epstein svipti sig lífi

Kjartan Kjartansson skrifar
Fangelsið í Manhattan þar sem Epstein var haldið. Hann var sakaður um mansal á ungum stúlkum í New York og Flórída.
Fangelsið í Manhattan þar sem Epstein var haldið. Hann var sakaður um mansal á ungum stúlkum í New York og Flórída. Vísir/Getty
Tveir verðir í fangelsinu í Manhattan þar sem Jeffrey Epstein var haldið fylgdust ekki með honum í þrjár klukkustundir vegna þess að þeir voru sofandi. Verðirnir tveir, sem hafa verið settir í leyfi, fölsuðu svo skjöl til að fela mistök sín.

Epstein, auðmaður sem sakaður er um mansal á ungum stúlkum, fannst látinn í klefa sínum í fangelsinu í New York á laugardagsmorgun. Virtist hann hafa hengt sig með laki. Hann hafði verið tekin af sjálfsvígsvakt þrátt fyrir að hann hafi fundist meðvitundarlaus með áverka á hálsi í klefa sínum í síðasta mánuði.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að fangaverðirnir tveir á sérdeildinni þar sem Epstein var haldið hafi ranglega skráð í dagbók að þeir hafi litið á hann á hálftíma fresti eins og þeim bar að gera. Það gæti verið alríkisglæpur. Verðirnir eru sagðir hafa verið sofandi að hluta til eða í allra þær þrjár klukkustundir sem Epstein var eftirlitslaus.

Epstein var jafnframt einn í klefa þrátt fyrir að reglur kvæðu á um að hann ætti að hafa klefafélaga. Fangelsisyfirvöld höfðu fært samfanga Epstein í annan klefa og því var hann einn á föstudagskvöld.

Verðirnir hafa verið sendir í launað leyfi og fangelsistjórinn hefur verið færður til í starfi. Annar þeirra vann ekki við að gæta fanga að aðalstarfi heldur bauð sig fram til þess fyrir yfirvinnuna. Hinn hafði verið skikkaður til að vinna yfirvinnu vegna manneklu í fangelsinu.

William Barr, dómsmálaráðherrann, hefur boðað ítarlega rannsókn á dauða Epstein. Hann sagði í gær að alvarlegir brestir hafi verið í fangelsinu. Rannsókn á glæpum Epstein verði ekki hætt þrátt fyrir dauða hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×