Sport

Nike ætlar ekki lengur að "refsa“ íþróttakonunum sínum fyrir að verða óléttar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allyson Felix fagnar með bandaríska fánann á Ólympíuleikunum í Ríó.
Allyson Felix fagnar með bandaríska fánann á Ólympíuleikunum í Ríó. Getty/Cameron Spencer
Bandaríski Ólympíumeistarinn Allyson Felix birti opinberlega bréf sem hún fékk frá íþróttavöruframleiðandanum Nike en þar kom fram að Nike hafi ákveðið að breyta öllum samningum sínum við íþróttakonur.

Allyson Felix sagði frá því á samfélagsmiðlum sínum að Nike ætli ekki lengur að „refsa“ Íþróttakonunum sínum fyrir að verða óléttar en hingað til hafa konurnar fundið fyrir því fjárhagslega þegar kemur að styrkjum frá Nike.

Nike hafði verið með árangurstengdar kvaðir í samningum sínum við íþróttakonur og það þýddi að það hafi miklar afleiðingar fyrir þeirra innkomu þegar þær hafa eignast barn.

Barnseignir hafa breytt miklu fyrir margar íþróttakonur og sumar hafa jafnvel hætt í framhaldinu enda ekki auðvelt að komast aftur í sitt fyrra form. Nú eru hins vegar breyttir tímar og íþróttakonur koma flestar aftur til baka sem er frábær þróun.





Forráðamenn Nike hafa því loksins tekið þá ákvörðun að henda öllum árangurstengdum skilmálum út þegar kemur að barneignum þeirra íþróttakvenna. Íþróttakonur fá nú átján mánaða tíma hjá Nike til að eignast barnið og koma sér aftur á fulla ferð á ný.

Allyson Felix er sexfaldur Ólympíumeistari en dóttir hennar fæddist fyrir tímann í nóvember. Allyson Felix sagði frá því í maí síðastliðnum að Nike ætlaði að greiða henni 70 prósent minna eftir að hún varð móðir. Hún snéri þá vörn í sókn.

Hin 33 ára gamla afrekskona ætlaði ekki að tapa þessum bardaga og barðist fyrir rétti sínum. Hún skrifaði meðal annars pistil í New York Times.

Barátta Allyson Felix bar árangur því Nike hefur nú ákveðið að henda út öllum skilmálum sem snúa að því að draga úr greiðslum til íþróttakvenna ef þær verða óléttar.

„Raddir okkar hafa völd,“ skrifaði Allyson Felix en það smá sjá allt bréfið hér fyrir neðan.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×