Sport

Ævintýri fimmtán ára stelpunnar heldur áfram á Wimbledon

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Coco Gauff.
Coco Gauff. Vísir/Getty

Coco Gauff er komin áfram í þriðju umferð Wimbledon risamótsins í tennis eftir sinn annan sigur í röð.

Coco Gauff er aðeins fimmtán ára gömul og varð sú yngsta til að vinna leik á risamóti í 23 ár þegar hún sló út Venus Williams á mánudaginn. Hún var líka sú yngsta til að vinna leik á hinu virta Wimbledon móti síðan 1991 eða í 28 ár.

Ævintýri Coco Gauff er hins vegar enn í fullum gangi og hún vann hrinurnar 6-3 og 6-3 í sigri sinni á slóvakísku tenniskonunni Magdalénu Rybáriková í annarri umferðinni. Gauff þurfti bara klukkutíma og níu mínútur til að klára dæmið.
Venus Williams er fimmfaldur Wimbledon-meistari en reyndar orðin 39 ára og því 24 árum eldri en Coco Gauff. Magdalena Rybáriková er „bara“ fimmtán árum eldri en sú bandaríska.

„Ég er ennþá í sjokki að ég skuli vera yfir höfuð að keppa hér,“ sagði Coco Gauff við BBC TV.

Það eru liðin 28 ár síðan að fimmtán ára tenniskona komst síðast í 32 manna úrslitin á Wimbledon. Jennifer Capriati var líka fimmtán ára þegar hún komst alla leið í undanúrslitin árið 1991.

Líf Coco Gauff hefur gjörbreyst á smá tíma og frægðin hefur bankað upp á dyrnar. Það hefur því ekki verið auðvelt fyrir hana að fá einhverja hvíld.„Ég bjóst ekki við þessu. Fullt af frægu fólki er að senda mér skilaboð og ég er eiginlega stjörnustjörf. Það ótrúlega er að samfélagmiðlar hjálpa mér að slaka á fyrir leikina. Ég er því mikið á þeim. Ég ætla líka að halda því áfram því það hefur gengið vel hingað til,“ sagði Gauff.

Næst á dagskránni er leikur á móti Polona Hercog frá Slóveníu í þriðji umferðinni og þar er sæti í sextán manna úrslitum í boði.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.