Menning

Varð heltekinn af Sturlungu

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
"Það gerist ekkert fyrr en búið er að útvega einhverja milljarða,“ segir Einar.
"Það gerist ekkert fyrr en búið er að útvega einhverja milljarða,“ segir Einar. FRÉTTABLAÐIÐ/ STEFÁN
Fjórar skáldsögur Einars Kárasonar um Sturlungaöld eru komnar út í einni bók. Þetta eru Óvinafagnaður, Ofsi, Skáld og Skálmöld sem komu út á árunum 2001-2014.Í stórbókinni er skáldsögunum raðað eftir rás atburða og yngsta bókin er því höfð fremst. Einar felldi niður og stytti nokkra kafla í þessari nýju útgáfu. „Þegar bækurnar komu út sjálfstætt voru í þeim nauðsynlegar tilvísanir á það sem áður hafði gerst, en þegar þær koma allar saman eru þessar tilvísanir óþarfar,“ segir hann.Mikil vinna liggur á bak við bækurnar. „Þegar ég var að byrja á fyrstu bókinni vann konan mín þá eins og nú á bókasafni. Þar var mikill Sturlungumaður tíður gestur og hún sagði við hann að nú væri maðurinn hennar dottinn í Sturlungu. Hann sagði: „Það er stórhættulegt, það er erfitt að komast inn í hana en útilokað að komast út úr henni aftur.“ Þetta var mín reynsla. Í um tuttugu ár var ég heltekinn af Sturlungu,“ segir Einar.Hann segist í byrjun einungis hafa ætlað að skrifa eina bók, um Þórð kakala. „Þórður kakali er svo nútímalegur og mér fannst hann vera karakter sem ég þekkti. Svo vatt þetta upp á sig og ég skrifaði tvær bækur í viðbót. Þá sá ég að ég hafði fjallað um allt Sturlungatímabilið fyrir utan upphaf þess. Thor Vilhjálmsson hafði skrifað Morgunþulu í stráum um Sturlu Sighvatsson en tók efnið gjörólíkum tökum en ég hafði gert í mínum bókum. Hvorugur var að vaða inn á svið hins þannig að ég skrifaði Skálmöld þar sem Sturla er aðalpersónan.“

Sjarmerandi siðblindingjar

Einar er spurður hvort viðhorf hans til einhverra persóna hafi breyst á þeim langa tíma sem hann var að vinna bækurnar.„Það gerðist stundum. Dæmi um það er Hrafn Oddsson sem kemur töluvert fyrir í bókinni um Þórð kakala og er þar ungur maður. Eftir því sem ég sökkti mér meira ofan í efnið sá ég hvers lags skaðræðismaður hann var. Hann var svakalega lyginn og undirförull, stóð aldrei við sín heit, sveik allt ef honum sýndist svo, þar á meðal vini sína. Ég fékk mjög sterkt á tilfinninguna að hann væri sama manngerð og Mörður Valgarðsson í Njálu. Ég hafði alltaf hugsað mér Mörð, eins og ég held að allir aðrir hafi gert, sem rottulegan og undirförulan karakter sem fer með róg. Ég fór að velta því fyrir mér hvort Hrafn hefði verið þannig.Svo áttaði ég mig á því að þessir menn voru að sjálfsögðu ekki þannig. Enginn trúir þessum týpísku áberandi undirförulu karakterum. Hins vegar ef menn hafa síkópat ískan sjarma þá geta þeir logið og vafið fólki um fingur sér og fengið það til að trúa sér. Ég held að Hrafn og Mörður hafi verið sjarmerandi siðblindingjar. Hrafn kemur mikið við í Skáldi og þar hefur hann þessi persónueinkenni.“ 

Óvinafagnaður, Ofsi, Skáld og Skálmöld komu út á árunum 2001-2014.

Handboltalið og Þórður kakali

Bæði íslenskir og erlendir aðilar hafa sýnt áhuga á að gera kvikmynd eftir sögunum og rétt fyrir hrun var Óvinafagnaður nálægt því að verða að kvikmynd.„Það var nokkurn veginn búið að fjármagna verkefnið en hrunið setti á endanum allt á annan endann. En rétt áður varð gengið svo sterkt að menn áttuðu sig á því að hvergi væri dýrara að taka upp mynd en á Íslandi,“ segir Einar. „Erlendu aðilarnir settu svo eitt og annað fyrir sig. Ameríkönunum fannst íslensku hestarnir of litlir og vildu fá að flytja inn hesta. Þeir sögðu að það yrði fáránlegt að sjá stóra og mikla menn fara í stríð á smáhestum, þeir yrðu eins og Hans klaufi. Óvinafagnaður endar í miklu lokauppgjöri og þessir erlendu aðilar voru efins um að láta menn kasta grjóti í stórum stíl, spurðu hvort það yrði ekki hálf hlægilegt.Við Friðrik Þór Friðriksson sátum á fundi með Bretum, Ameríkönum og Hollendingum og við máttum ekki heyra á það minnst að sleppa grjótkastinu. Þegar búið var að ræða þetta vildi svo til að í átta liða úrslitum í heimsmeistarakeppninni í handbolta var að byrja mjög spennnandi leikur þar sem við áttum að spila á móti Rússum. Við Friðrik fórum með útlendingana á sportkrá. Í leiknum tók Óli Stef skot sem lenti í hausnum á varnarmanni sem lá vankaður í gólfinu.Við Friðrik sögðum við útlendingana: Þetta er leðurblaðra full af lofti, hugsið ykkur ef þetta hefði verið hálfs kílós steinn! Þá sögðu þeir: Haldið þið að við gætum fengið handboltalandsliðið til að vera í áhöfninni hjá Þórði kakala? Ég sagði að það yrði örugglega ekkert mál.“Hugmyndir hafa einnig verið uppi um að gera sjónvarpsseríu eftir bókunum. „Það er frægur handritshöfundur að vinna með þá hugmynd, Ástrali sem ég hitti um daginn,“ segir Einar og bætir við: „En það gerist ekkert fyrr en búið er að útvega einhverja milljarða.“ Skáldsaga Einars, Stormfuglar, er nýkomin út í Tékklandi og kemur út í helstu löndum Evrópu á næstu vikum og mánuðum, en einnig í Kína, Egyptalandi og Brasilíu.Einar hefur síðan nýlokið við ævisögu Friðriks Þórs Friðrikssonar leikstjóra sem kemur út fyrir jól. „Líf hans hefur verið algjört ævintýri, endalaus lífshætta af öllu tagi á hinum furðulegustu stöðum í heiminum,“ segir Einar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.