Mikilvægur sigur Nígeríu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Asisat Oshoala skoraði frábært mark sem tryggði sigurinn
Asisat Oshoala skoraði frábært mark sem tryggði sigurinn vísir/getty
Nígería náði í þrjú gríðarmikilvæg stig í A-riðli á HM kvenna í fótbolta með sigri á Suður-Kóreu í dag.

Hvorugt liðið hafði skorað mark í fyrstu umferð riðlakeppninnar en nú hafa þau bæði skorað þrátt fyrir að Nígería hafi unnið 2-0 sigur.

Fyrsta mark leiksins var nefnilega sjálfsmark frá Kin Do-yeun. Nígería átti sendingu yfir varnarlínuna sem sú kóreska reyndi að koma fæti í. Það gekk ekki betur en svo að hún skaut boltanum framhjá markmanninum og í netið.

Markið var nokkuð gegn gangi leiksins en kóreska liðið hafði verið mun meira með boltann fyrsta hálftímann. Þær náðu hins vegar ekki að nýta yfirburðina.

Þær kóresku virtust hafa jafnað eftir klukkutíma leik en mark Lee Geum-min var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Von þeirra um að jafna leikinn var svo slökkt þegar Asisat Oshoala skoraði annað mark Nígeríu með frábæru einstaklingsframtaki á 75. mínútu.

Fleiri urðu mörkin ekki, Nígería er nú með þrjú stig í riðlinum líkt og Noregur og Frakkland sem mætast í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira