Innlent

Telur umræðu um breytingar á fjármálaáætlun á villigötum

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Sundrung virðist innan fjárlaganefndar vegna nýrrar fjármálaáætlunar sem ræða á á Alþingi á morgun. Formaður fjárlaganefndar segir umræðu um niðurskurð á villigötum, útgjöld hafi verið aukin til allra málaflokka. Formaður Samfylkingarinnar segir þá efnameiri fá afslátt á meðan öryrkjum blæðir.

Ríkistjórnin lagði til við fjárlaganefnd að gerðar yrðu breytingar á fjármálaáætlun fyrir árin 2019 til 2022. Breyttar horfur í efnahagslífinu áætla að afkoma ríkisjóðs gæti versnað um 35 milljarða árin 2019 og 2020 ef ekki yrði brugðist við.

Fyrsta umræða fjárlaganefndar fór fram í byrjun mánaðar og gagnrýndi Samfylkingin niðurskurð til málaflokka öryrkja, aldraðra, skóla, stjórnsýslu og umhverfis. Nefndin fundaði aftur í morgun og segir formaður Samfylkingarinnar ánægjulegt að draga eigi til baka part af niðurskurði til öryrkja.

„Það skýtur skökku við núna að öryrkjar sem ekki nutu uppgangsins eiga að blæða. Að það sé verið að gefa afslátt hjá stórútgerðinni, það sé ekki verið að fresta bankaskattinum nema í eitt ár, og að við treystum okkur ekki til að leggja fjármagnstekjuskatt að minnsta kosti í samræmi við það sem hin norðurlöndin treysta sér til," segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar segir þetta ekki rétt. Hann segir að útgjöld hafi aukist hvað mest til félags- og velferðarmála frá árinu 2018. „það er enginn niðurskurður í þessari áætlun. Það er hins vegar þannig að þar sem endurmatsverkefnið er að skila árangri hægist á kerfislegum vexti útgjalda en það er verið að auka framlög til allra málaflokka.

Er þá engin niðurskurður í vændum?

„Það er enginn niðurskurður í þessari áætlun. Það er útgjaldaaukning til allra málafloka. Ég skil ekki umræðuna."

Hvað er þá verið að ræða um núna varðandi breytta fjármálaáætlun?

„Það er auðvitað til að taka að það voru einhverjir nefndarmenn sem hlupu til og töluðu um niðurskurð. Það virðist vera erfitt að vinda ofan af þeirri umræðu," segir Willum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×