Bíó og sjónvarp

Ingvar valinn besti leikarinn í Transylvaníu

Birgir Olgeirsson skrifar
Ingvar tekur við verðlaununum.
Ingvar tekur við verðlaununum.
Ingvar Sigurðsson aðalleikari kvikmyndarinnar Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason hlaut leikaraverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu í gærkvöldi. Þetta er því önnur hátíðin í röð sem Ingvar hlýtur verðlaun fyrir leik sinn í myndinni, en fyrir eingöngu rúmum tveimur vikum var hann verðlaunaður á kvikmyndahátíðinni Critic´s Week í Cannes þar sem myndin var heimsfrumsýnd.Bandaríski leikarinn Nicolas Cage var einnig verðlaunaður á hátíðinni fyrir framlag sitt til kvikmyndalistarinnar.Þess má geta að Hlynur Pálmason hlaut einnig verðlaun á hátíðinni í Transylvaníu á síðasta ári, þá fyrir bestu leikstjórn fyrir fyrstu kvikmynd sína, hina dönsk/íslensku Vetrarbræður sem kom út árið 2017 og fór sigurför um heiminn í kjölfar heimsfrumsýningu í aðalkeppni Locarno kvikmyndahátíðarinnar í Sviss.Hér má sjá Ingvar veita verðlaununum viðurkenningu, en hann fékk meðal annars 1.500 evrur í sinn hlut. 

Hvítur, hvítur dagur hefur hlotið mikið lof og fengið frábæra dóma hjá hinum ýmsu virtu kvikmyndatímaritum á borð við Cineuropa, Screen International og The Hollywood Reporter. Þá hafa gagnrýnendur farið fögrum orðum um leik Ingvars: „Ingimundur er heillandi og áhugaverður karakter, meistaralega dreginn upp af Ingvari Sigurðssyni“ segir t.a.m. í Screen International, og enn fremur að myndin sjálf sé „sjónrænt grípandi og áhrifamikil“.Myndin fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst.Myndin er framleidd af Join Motion Pictures og Sena sér um dreifingu hennar á Íslandi.Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi 6. september.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.