Tónlist

Bjartmar með þjóðhátíðarlagið í ár

Steingerður Sonja Þórisdóttir skrifar
Bjartmar samdi lagið Eyjarós, sem er þjóðhátíðarlagið í ár.
Bjartmar samdi lagið Eyjarós, sem er þjóðhátíðarlagið í ár. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR EYJÓLFSSON
Hinn ástsæli tónlistarmaður Bjartmar Guðlaugsson semur og syngur þjóðhátíðarlagið í ár.

„Ég var valinn í þetta hlutverk og ég er alveg ofsalega ánægður með það. Þannig að ég bara settist niður og fór að semja. Ég er alveg ótrúlega þakklátur og hamingjusamur með að hafa verið valinn í þetta,“ segir Bjartmar. Bjartmar segir að það verði lítið um rapp í laginu. „Mér finnst rappið æðislegt þegar það kemur að ljóðaforminu, en nei, ég læt mér bara nægja að hlusta og horfa á aðra þegar kemur að því,“ svarar Bjartmar hlæjandi.

Bjartmar segist hafa gaman af því að unga kynslóðin sé að sýna tónlist hans meiri og meiri áhuga, „Mér finnst það skemmtilegt og alveg ótrúlega gaman að upplifa hvernig unga fólkið er meira að hlusta á lögin mín. Ég er búinn að vera að spila stanslaust síðan 2010. Ég tók mér þar áður nokkurra ára hlé þar sem ég var mest að sinna myndlistinni.“ Árið 2010 gaf Bjartmar plötu ásamt hljómsveitinni Bergrisunum.

„Ég er búinn að vera að síðan og ekkert að pæla í því að hætta. Svo er ég alltaf að sinna myndlistinni, ég mála daglega og reyni að halda sýningar reglulega. Ég reyni bara að sinna þessu öllu jafnt og þétt, mála myndir og semja ljóð. Þetta hangir allt saman.“ Bjartmar segir lagið vera rómantískan söng.

„Þetta lag mun alveg sérstaklega höfða til þeirra sem hafa orðið ástfangnir á Þjóðhátíð. En svo er þetta líka mjög gott rasskinna eróbikk. Það munu allir raula með,“ segir Bjartmar hlæjandi.

„Ég er alveg einstaklega ánægður með þetta lag og þá sem unnu þetta með mér. Svo er það líka í smá reggístíl. Ég elska reggí. Enda fór ég á sínum tíma til Jamaíku með Rúnari Júlíussyni félaga mínum.

„Bjartmar og Rúnar fóru til Negril á Jamaíka „Við Rúnar fórum 2008 minnir mig. Við fórum og skoðuðum allt. Skoðuðum meðal annars fæðingarstað Bob Marley og svo í stúdíó í Kingston. Í Negril sátum við á ströndinni og horfðum á sólina súnka í hafið“, segir Bjartmar glettinn. Rúnar sagði Bjartmari að eitt fegursta sólarlagið væri í Negril.

„Nema svo bætti hann auðvitað við að Garðskaginn væri þar undanskilinn. Þar væri allra fegursta sólarlagið.“ Bjartmar er uppalinn Austfirðingur og bjó fyrstu árin á Fáskrúðsfirði. Þegar hann var sjö ára gamall flutti fjölskyldan til Eyja. „Þannig að ég hef sterka tengingu við Eyjar. Ég flutti þaðan tvítugur en hef alltaf komið reglulega og litið á mig að hluta til á mig sem Vestmanneying.“

Bjartmar gerði þjóðhátíðarlagið 1989 ásamt Jóni Ólafssyni, Bjartmar textann og Jón lagið. Bjartmar tók einnig þátt í því að semja goslokalagið árið 2013.

„Lagið í ár heitir Eyjarós. Þetta er svoleiðis bullandi rómantík.“

Talið berst að einu þekktasta lagið Bjartmars, Týndu kynslóðinni. En af hverju beyglaði mamma alltaf munninn?

„Ég tók bara eftir þessu á sínum tíma. Allar konur sem ég þekkti beygluðu munninn um leið og þær settu á sig maskara. Þær gera þetta enn þann dag í dag allar ungur stúlkurnar, nema núna setja þær frekar stút á munninn og taka selfie.“ segir Bjartmar hlæjandi að lokum. Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum verður haldin dagana 1.-3. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×