Menning

Lofar kraftmikilli og litríkri dagskrá

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Hver einasti nemandi kemur með eitthvað nýtt inn í líf mitt,“ segir Auður.
„Hver einasti nemandi kemur með eitthvað nýtt inn í líf mitt,“ segir Auður. Fréttablaðið/Stefán
Mér fannst upplagt á þessum tímamótum að spila nokkur af mínum uppáhaldsverkum með henni Önnu Guðnýju,“ segir Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari glaðlega. Hún heldur tónleika á morgun í Norðurljósum í Hörpu klukkan 16 sem falla undir Sígilda sunnudaga. Tímamótin eru tvöföld, það eru 30 ár frá því hún hóf sinn fiðluleikaraferil og svo hefur hún kennt í 20 ár.

„Ég hef blandað þessu tvennu mikið saman, að spila á tónleikum og kennslunni. Það hefur gengið vel. Kennslan veitir mér orku því hver einasti nemandi kemur með eitthvað nýtt inn í líf mitt og þeir verða vinir mínir alla ævi. Ég byrja á að huga að sjálfsmynd þeirra. Það er svo mikilvægt að hún sé sterk, annars gerist ekkert, sama í hverju maður er.“

Auður segir þá sem halda áfram á klassísku tónlistarbrautinni oft verða á vegi hennar í daglegu lífi og hinir sem velji sér annað lífsstarf græði líka á náminu því að það sé svo krefjandi. „Ég bið krakkana að horfa í smásjána í huganum þegar þeir eru að æfa sig, nákvæmnin þarf að vera svo mikil. Svo blandast margar listgreinar inn í, nemendur verða til dæmis að segja sögu með tónverkinu og bera sig eins og ballettdansarar.“

Þeir eru margir sem Auður hefur kennt á þessum tveimur áratugum og þegar hin svokallaða Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands heldur sína tónleika á haustin, þar sem nemendur tónlistarskólanna fá að spreyta sig, hefur hún átt hálfa fiðlusveitina ár eftir ár.

Auður og Anna Guðný hafa spilað mikið saman og eru að ljúka við disk með íslenskri tónlist fyrir fiðlu og píanó, hún verður efni næstu tónleika.

Nú lýsir Auður inntaki dagskrárinnar á morgun sem hún segir kraftmikla og litríka. „Bara Prokofjev-sónatan ein og sér er mjög dramatísk, samin í miðjum hreinsunum Stalíns, en Grieg-sónatan vegur á móti, það er falleg náttúrufegurð í henni. Maður sér fyrir sér skógana, firðina og fjöllin í Noregi. Argentínsku áhrifin í tangóinum eftir hlé eru líka ljúf. Ég hef spilað mikinn tangó. Hann er alltaf í mínu hjarta. Þetta verk var upprunalega skrifað fyrir selló en verður nú pottþétt í fyrsta sinn spilað á fiðlu hér á landi. Ég hef lengi átt það í fórum mínum.“

Í lokin er hún spurð hvort hún muni eftir fyrstu stóru tónleikunum sínum. „Já, þá spilaði ég Grieg númer 3 líka, minnir mig, líklega í Listasafni Íslands.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×