Lífið

Fjallið játar að hafa notað stera

Sylvía Hall skrifar
Hafþór Júlíus Björnsson.
Hafþór Júlíus Björnsson. Vísir/Getty
Hafþór Júlíus Björnsson, betur þekktur sem Fjallið, játaði í viðtali við ESPN í þættinum E:60 að hann hafi notað stera. Ástæðuna sagði hann vera þá að hann myndi gera allt til þess að ná árangri. Bleacher Report greinir frá.

Í viðtalinu, sem sýnt var á sunnudag, sagðist Hafþór vissulega hafa notað stera en tjáði sig ekki um hversu lengi né hvort hann notaði þá enn. Þá bað hann um að spyrillinn myndi hætta að spyrja út í steranotkunina. 

Viðtalið var tekið upp árið 2017 og talar Hafþór þar um upphafið að Game of Thrones-ferlinum og þátttöku sína í keppnum á borð við sterkasta mann heims. Hann segist hafa fundið sig í kraftlyftingum eftir erfið ökklameiðsli í körfubolta og hafi sú íþrótt á endanum orðið til þess að hann vakti athygli fyrir stærð sína sem tryggði honum hlutverkið. 





„Ég fékk tölvupóst. Ég hafði enga leiklistarreynslu svo að fá tölvupóst frá Game of Thrones upp úr þurru, ég trúði ekki að það væri satt,“ segir Hafþór í viðtalinu og bætir við að hann hafi ekki svarað póstinum í upphafi. Í framhaldinu fékk hann símtal um áheyrnarprufu sem hann samþykkti. 

Þá segist hann hafa haft áhyggjur af því að vinnuálagið verði honum ofviða en þrátt fyrir það ætli hann sér ekki að minnka við sig. Þetta sé líf hans í dag.

„Ég hef oft hugsað út í það, hvað ef ég dey? Það væri mjög erfitt að hugsa til þess að ég færi frá fjölskyldunni minni of snemma. Ég vil vera til staðar fyrir fjölskylduna mína. Ég vil vera til staðar fyrir dóttur mína.“


Tengdar fréttir

Steraæði á Íslandi

Læknar ávísa mun meira af sterum en áður, saksóknari sér tengingu við heimilisofbeldismál og eftirlit í líkamsræktarstöðvum er handan við hornið. Sérfræðingur segir stera ekki einkamál þeirra sem þá nota.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×