Erlent

Sænska ríkis­stjórnin gefur grænt ljós á Ólympíu­leika

Atli Ísleifsson skrifar
Sumarólympíuleikarnir fóru fram í Stokkhólmi árið 1912.
Sumarólympíuleikarnir fóru fram í Stokkhólmi árið 1912. Getty

Ríkisstjórn Svíþjóðar gaf í morgun grænt ljós á umsókn höfuðborgarinnar Stokkhólms um að halda Vetrarólympíuleika árið 2026. Var um að ræða síðustu hindrunina í umsóknarferlinu.

Sérfræðingur sænska ríkissjónvarpsins í skíðaíþróttum segir að tilkynning ríkisstjórnarinnar hafi ekki komið á óvart úr því sem komið var.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur áður sagt að nauðsynlegt væri að tryggja að sænska ríkið verði ekki fyrir óþarfa hættu vegna málsins, bæði hvað varðar öryggisþáttinn og efnahagslega þáttinn.

Alþjóðaólympíunefndin mun greiða atkvæði um hvort leikarnir 2026 fari fram í Stokkhólmi eða Cortina d‘Ampezzo á Ítalíu í júní næstkomandi.

Fari leikarnir fram í Stokkhólmi yrði keppt í nokkrum greinum í skíðabænum Åre, um 600 kílómetrum norður af Stokkhólmi.

Sumarólympíuleikarnir fóru fram í Stokkhólmi árið 1912 og Vetrarleikarnir í Cortina árið 1956. Næstu Vetrarleikar fara fram í Peking í Kína árið 2022.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.