Menning

Söngur er sælugjafi

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Gunnar Guðbjörnsson segist lengi hafa gengið með þá hugmynd að gaman væri að fá óperusöngvara í spjall.
Gunnar Guðbjörnsson segist lengi hafa gengið með þá hugmynd að gaman væri að fá óperusöngvara í spjall. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Gunnar Guðbjörnsson hefur umsjón með viðtalstónleikum við óperusöngvara í Salnum. Fyrstu tónleikarnir verða í dag með Elmari Gilbertssyni.

Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvari heldur tónleikaröð í samstarfi við Salinn. Um er að ræða viðtalstónleika við óperusöngvara undir heitinu Da Capo (Frá byrjun).

„Ég hef lengi gengið með þá hugmynd að gaman væri að fá óperusöngvara í spjall, svona í líkingu við það sem Jón Ólafsson hefur gert í Af fingrum fram. Önnur fyrirmynd eru þýskir sjónvarpsþættir sem hétu Da Capo og ég fékk heitið lánað þaðan,“ segir Gunnar.

Leikhús með tónlist

Þegar hefur verið skipulögð dagskrá með sex óperusöngvurum, þeim Elmari Gilbertssyni, Kristni Sig munds syni, Dísellu Lárusdóttur, Bergþóri Pálssyni, Diddú og Þóru Einarsdóttur. „Allt eru þetta söngvarar sem hafa átt f lottan feril og túlkað ólík hlutverk,“ segir Gunnar. Hann segist vonast til að einhver sjónvarpsstöðvanna vilji taka tónleikaröðina upp.

„Hugsunin með þessari röð er að brjóta upp tónleikaformið á skemmtilegan hátt,“ segir hann. „Viðkomandi söngvari syngur nokkur lög eða aríur en svo er dagskráin brotin upp með spjalli mínu við hann og sýndar eru gamlar myndbandsupptökur eða hljóðupptökur. Þannig verður þetta eins konar sýning, ekki bara tónleikar, og við erum svo lánsöm að Íslenska óperan hefur lofað aðstoð sinni og lánar okkur efni sem til er.

Elmar Gilbertsson verður fyrsti gestur Gunnars í Salnum.Fréttablaðið/Stefán
Óperan er yfirleitt sett í hátíðlegan ramma en í sumum löndum, eins og til dæmis Þýskalandi, hafa menn verið duglegir við að brjótast út úr hefðarforminu. Mér finnst að við ættum að gera það sömuleiðis hér á Íslandi. Þessi tónleikaröð er tilraun til þess. Óperulistin er leikhús með tónlist og reyndar einnig myndlist. Þarna set ég kastljósið á söngvara sem hafa mótandi áhrif á hverja einustu uppfærslu sem þeir taka þátt í.“



Fáum ekki að kenna nóg

Fyrstu tónleikarnir verða í dag, 9. febrúar klukkan 16, með Elmari Gilbertssyni. Næstu tónleikar verða 24. febrúar með Kristni Sigmundssyni. Dísella Lárusdóttur verður í Salnum 2. mars og Bergþór Pálsson þann 30. mars, Diddú 28. apríl og síðan kemur að Þóru Einarsdóttur þann 18. maí.

Gunnar, sem kennir við og er skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz, segir Íslendinga hafa gríðarlegan áhuga á söng. „Söngáhugi hér er meiri en víðast hvar annars staðar. Í Reykjavík eru tveir fjölmennir söngskólar, Söngskóli Sigurðar Demetz og Söngskólinn í Reykjavík. Hér í þessum skóla náum við ekki að anna eftirspurn, það má segja að vandi okkar sé að við fáum ekki að kenna nóg. Það er líka ótrúlegur fjöldi Íslendinga sem syngur í kórum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×