Innlent

Ógleði og slappleiki í húsnæði Hagaskóla

Ari Brynjólfsson skrifar
Í erindum foreldra barna í Hagaskóla til skólans kemur fram að börn þeirra glími við slappleika, stigversnandi höfuðverk og ógleði.
Í erindum foreldra barna í Hagaskóla til skólans kemur fram að börn þeirra glími við slappleika, stigversnandi höfuðverk og ógleði. Fréttablaðið/Valli
Nokkur fjöldi nemenda og starfsmanna í Hagaskóla hefur sýnt einkenni í samræmi við heilsuspillandi húsnæði. Þetta kemur fram í bréfi skólastjóra Hagaskóla til skóla- og frístundasviðs borgarinnar sem Fréttablaðið hefur undir höndum.„Þessir starfsmenn leggja traust sitt á að ég geti fullvissað þá um að húsnæðið sé í lagi. Það get ég ekki gert,“ segir í bréfinu. Segir þar jafnframt að stofurnar hafi „stundum verið rennandi blautar“. Töluvert sé af silfurskottum og skemmdum sem bendi til raka. Segir þar einnig að sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og borgarstjóri hafi fengið gögn um ástand skólans fyrir þremur árum. Er í lok bréfsins óskað eftir tímasetningum um hvenær húsnæðið verði lagað.Einum skóla og álmu í öðrum skóla í Reykjavík var lokað í vor eftir að mygla fannst í húsnæðinu. Kom það ekki í ljós við skoðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur svo að taka þurfti sýni og fá úr því skorið hjá Náttúrufræðistofnun.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Engin sýni hafa verið tekin í Hagaskóla í tengslum við myglu. Verkfræðistofan Mannvit mældi of háan koltvísýring í fjórum skólastofum í Hagaskóla í fyrra. Fram kemur í skýrslu Mannvits frá því í apríl síðastliðnum að koltvísýringur sé enn of hár og valdi hausverk og slappleika.Foreldrar barna við skólann hafa margir hverjir sent erindi á skólann þar sem segir að börn hafi fundið fyrir slappleika. „Það er ótvírætt að húsnæðið hefur valdið dóttur minni, […] í 8. […] óþægindum. Í haust, stuttu eftir skólabyrjun, skrifaði ég […] um að henni liði illa í skólastofunni vegna loftleysis. Nú í vor var það enn verra, hún var með höfuðverk oftar en ekki, ógleði og slappleika,“ segir í einu erindanna sem Fréttablaðið hefur undir höndum. Í öðrum kemur fram stigversnandi líðan barna. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur rætt málið á vettvangi borgarstjórnar. Hún segir forgangsröðun borgarinnar hafa verið kolranga í áraraðir. „Það er sífellt farið í vörn þegar þetta berst í tal.“ Í svari frá borginni segir að viðhaldsþörf í grunnskólunum sé uppsöfnuð og afleiðing af efnahagssamdrættinum sem varð eftir hrunið. Nú sé verið að vinna það upp með auknum fjárframlögum til viðhalds.„Ég vorkenni starfsfólki skóla- og frístundasviðs. Þau fá endalaust af kvörtunum og áköll en þau hafa ekki fjármagn til að takast á við þetta. Þetta er orðið svo stórt,“ segir Kolbrún. „Fyrir utan grey börnin sem þurfa að dúsa þarna. Það kæmi ekki á óvart að við færum að sjá skaðabótamál vegna þessara mála.“Skólastjórnandi í Hagaskóla, sem Fréttablaðið náði tali af í gær, segir að þeir hafi lengi talað fyrir daufum eyrum en fyrirhugað sé að funda með fulltrúum Reykjavíkurborgar í dag.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.