Trump forseti tilkynnti skyndilega um að hann ætlaði að draga allt herlið Bandaríkjanna frá Sýrlandi um miðjan desember. Ákvörðunin olli miklum úlfaþyti enda kom hún bandamönnum og ráðgjöfum að óvörum. Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði af sér vegna hennar og almenns ósættis við forsetann og Brett McGurk, sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar í málefnum Sýrlands sömuleiðis.
„Það eru markmið sem við viljum ná sem skilyrða brotthvarfið,“ sagði Bolton við fréttamenn í Jerúsalem í dag. Þar reyndi hann að róa ísraelsk stjórnvöld sem hafa áhyggjur af fyrirhuguðu brotthvarfi Bandaríkjanna frá Sýrlandi.
Heimildir herma að Trump hafi samþykkt að kalla herinn ekki heim fyrr en eftir fjóra mánuði en áður hafði hann ætlað að gera það innan mánaðar. Washington Post hefur eftir heimildarmanni sínum að engin tímasett áætlun sé til staðar um liðsflutningana frá Sýrlandi.

„Við ætlum að draga herliðið okkar til baka. Ég sagði aldrei að við myndum gera það svo fljótt,“ sagði Trump við fréttamenn. Það myndi ekki gerast fyrr en Ríki íslams væri horfið úr Sýrlandi.
Bandamenn Bandaríkjanna og flokkssystkini Trump í Repúblikanaflokknum hafa varað forsetann við því að brotthvarfið frá Sýrlandi geti blásið byr í segl Írana og Rússa og raskað viðkvæmu jafnvægi sem Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa náð í landinu.
Bolton heimsótti einnig Tyrkland í ferð sinni. Tyrknesk stjórnvöld hafa í hyggju að ráðast á kúrdíska bandamenn Bandaríkjanna í Sýrlandi. Bolton er sagður hafa freista þess að fá tryggingar frá þeim um að öryggi Kúrdanna eftir brotthvarf bandaríska herliðsins.
Kevin Sweeney, starfsmannastjóri varnarmálaráðuneytisins, bættist í hóp æðstu embættismanna í hernaðarmálum sem hafa sagt af sér eftir að tilkynnt var um brotthvarfið frá Sýrlandi í gær.