Erlent

Melania Trump fylgir eiginmanninum ekki á leiðtogafundina

Hulda Hólmkelsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Melania Trump fór í nýrnaaðgerð í síðasta mánuði.
Melania Trump fór í nýrnaaðgerð í síðasta mánuði. Vísir/getty
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, mun hvorki fylgja eiginmanni sínum Donald Trump á fund leiðtoga G-7 ríkjanna í vikunni né á fyrirhugaðan leiðtogafund Trump og Kim Jong Un, leiðtoga norður Kóreu. Melania var viðstödd fund G7 ríkjanna á Ítalíu á síðasta ári og fór vel á með henni og öðrum mökum leiðtoganna. Hún mun ekki sækja fundinn heim í ár sem fer fram í Quebeq í Kanada í vikunni. 

Melania hefur ekki sést á almannafæri frá 10. maí þegar forsetahjónin tóku á móti þremur Bandaríkjamönnum sem höfðu verið fangar í Norður Kóreu. Mörgum þykir fjarvera Melaniu einkennileg en forsetafrúr Bandaríkjanna eru ekki síður opinberar persónur en eiginmenn þeirra.

Sögusagnir um hugsanlegar lýtaaðgerðir eða mögulegan flutning hennar til New York voru orðnar áberandi á samfélagsmiðlum. Melania fór í nýrnaaðgerð um miðjan maí en var aðgerðin sögð minniháttar. Melania Trump ásamt eiginmanni sínum þann 10. maí síðastliðinn á lóð Hvíta hússinns. Hún hefur ekki sést opinberlega síðan.Vísir/Getty
Í síðustu viku voru áhyggjur af líðan forsetafrúnar og vangaveltur um ástæðurnar fyrir fjarverunni orðnar svo háværar að hún fann sig knúna að tilkynna það á opinberum Twitter reikning sínum að hún væri við hestaheilsu og að hún væri í Hvíta húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Um helgina var forsetinn í Camp David, sveitabústað forseta Bandaríkjanna, með börnum sínum Donald Trump Jr, Tiffany Trump, Ivönku Trump og tengdasyninum Jared Kushner. Melania var ekki með þeim samkvæmt frétt BBC.

Í gær tilkynnti talskona hennar svo að hún muni ekki fylgja forsetanum á fund G-7 ríkjanna og að ekki standi til að hún fylgi honum til Singapúr seinna í mánuðinum. Í kvöld munu forsetahjónin þó halda móttökuveislu fyrir fjölskyldur fallinna hermanna, en viðburðurinn verður ekki opinn fjölmiðlum.


Tengdar fréttir

Melaniu heilsast vel eftir nýrnaaðgerð

Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, gekkst undir skurðaðgerð á nýra í gærkvöld. Ástæðan mun vera það sem kallast blóðrek, þ.e. blóðsegi, loftbóla eða annað í blóðstraumi sem stíflar þrönga æð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.