Lífið

Freyja gerir grín að bremsuskýringu Sigmundar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Freyja Haraldsdóttir.
Freyja Haraldsdóttir. Vísir/Vilhelm
Freyja Haraldsdóttir virðist ekki gefa mikið fyrir skýringar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um hver sé uppruni þess hljóðs sem heyrist þegar þingmennirnir sem sátu að sumbli á barnum Klaustur á dögunum ræddu um Freyju.

Í frétt DV um málið sem byggð var á upptökum af samtali þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins segir að þingmennirnir hafi gert grín að Freyju og einn þeirra hafi hermt eftir sel er samtalið stóð sem hæst. Sjálfur hefur Sigmundur Davíð þvertekið fyrir að einhver þeirra sem viðstaddur var hafi hermt eftir sel, líklega hafi verið um hljóð sem myndaðist þegar stóll var færður til.

Vísir kannaði hins vegar málið fyrr í dag og leiðir óvísindaleg rannsókn blaðamanns til þess að afar ólíklegt er að þeir stólar sem eru á Klaustur geti myndað sambærilegt hljóð og heyra má í upptökunum. Þegar Sigmundur Davíð var spurður um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2 í dag þvertók hann fyrir að þingmennirnir hafi verið að gera grín að Freyju. Þá sagði Sigmundur Davíð að heyra mætti á upptökunum að hljóðið kæmi ekki frá þeim stað þar sem þingmennirnir sætu, uppruni þess væri nær þeim stað þar sem sá sem tók upp samræðurnar hefði setið.

„Þetta gat verið reiðhjól að bremsa fyrir utan gluggann,“ sagði Sigmundur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Freyja, sem þekkt er fyrir baráttu hennar fyrir réttindum fatlaðra einstaklinga en hún glímir við beinasjúkdóminn Osteogenesis imperfecta og notar því hjólastól, virðist hafa verið að horfa á fréttirnar ef marka má ummæli hennar á Twitter.

„Þetta var ekki stóll. Þetta var ekki hjól. Þetta var örugglega hjólastóllinn minn að skransa fyrir utan Klaustur,“ skrifar Freyja á Twitter á léttu nótunum.


Tengdar fréttir

Freyja gefur lítið fyrir afsökunarbeiðni Sigmundar

Hún segist ekki vilja fleiri símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til hennar og reynir að útskýra fyrir henni hvað fötlunarfordómar eru. Vísar hún þar til símtals sem hún fékk frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×