Innlent

Litla hafpulsan hefur misst reisn sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hér sést Litla Hafpulsan á Reykjavíkurtjörn í morgun.
Hér sést Litla Hafpulsan á Reykjavíkurtjörn í morgun. Vísir/Vilhelm
Svo virðist sem skemmdir hafi verið unnar á listaverkinu Litlu hafpulsunni í Tjörninni eða verkið hafi farið illa í vindi í höfuðborginni í nótt. María Rut Kristinsdóttir vakti athygli á þessu á Twitter í morgun og bætti Freyja Steingrímsdóttir um betur með mynd af skemmdunum sem sjá má hér að neðan. 

Um er að ræða listaverk eftir listakonuna Steinunni Gunnlaugsdóttur sem afhjúpað var þann 26. október. Um er að ræða framlag Steinunnar til Cycle listahátíðarinnar. Litla Pulsan hefur vakið athygli miðbæjargesta, sérstaklega í upphafi þegar fólk velti fyrir sér hvað væri eiginlega komið í Tjörnina.

Hér sést Litla Hafpulsan á Reykjavíkurtjörn í fyrradag.Vísir/Vilhelm
Á vef Listahátíðarinnar segir að verkið sé Framlag Steinunnar til 100 ára fullveldisafmælis Íslendinga. Pulsan hefur verið viðfangsefni Steinunnar í þónokkrum verkum hennar en árið 2009 sýndi hún myndbandsverkið Lýðræðið er Pulsa.

Í samtali við blaðamann Vísis í október sagði Steinunn að Pulsan, þjóðarréttur Íslendinga, sé myndlíking hennar við lýðræðið. Steinunn hugðist sýna verkið ásamt innsetningum eða öðrum listformum við hverjar alþingiskosningar. Kosningarnar segir hún samsvara því þegar álegg eru valin á pulsu. Sinnep, remúlaði eða tómatsósa, allt sé þetta svipað og „cheap“.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, hafði ekki heyrt af skemmdunum þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann sá skemmdirnar út um glugga á Ráðhúsi Reykjavíkur og var greinilega hissa og miður sín.


Tengdar fréttir

Litla hafpulsan í tjörninni vekur athygli

Listaverkið Litla Hafpulsan var afhjúpað í gær og stendur í Tjörninni í Reykjavík. Listakonan Steinunn Gunnlaugsdóttir segir pulsuna vera myndlíkingu fyrir lýðræðið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×