Innlent

Ekkert fæst upp í launakröfur starfsmanna United Silicon

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ekkert mun fást upp í launakröfur hátt í sextíu starfsmanna í þrotabú United Silicon en eignir búsins hafa að mestu farið í að greiða veðkröfur Arion banka. Tjón starfsmanna gæti hlaupið á tugum milljóna króna.

Untied Silicon var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun þess árs en hátt í sextíu manns unnu hjá fyrirtækinu þegar mest var. Kröfur í þrotabúið námu 23 milljörðum króna en þar af var Arion banki stærstur með 9,5 milljarða.

Fimmtíu og fimm starfsmenn lögðu fram launakröfur upp á samtals 110 milljónir króna en Geir Gestsson skiptastjóri þrotabús United Silicon segir í samtali við fréttastofu að það sé afar ólíklegt að eitthvað fáist upp í þessar launakröfur. Eignir búsins hafi að mestu farið í að greiða veðkröfur Arionbanka.

Ábyrgðasjóður launa hefur verið að greiða út til starfsmanna en sjóðurinn ábyrgist greiðslu vangoldinna launa upp að vissu marki.

Einn fyrrum starfsmaður - sem hafði samband við fréttastofu - sagðist hafa lagt fram launakröfur í þrotabúið upp á rúmar fjórar milljónir en fengið fimm hundruð þúsund úr ábyrgðasjóði launa eða um tólf prósent kröfunnar.

Arion banki leysti verksmiðjuna til sín þegar hún var lýst gjaldþrota á sínum tíma og hefur bankinn verið skoða mögulega sölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×