Lífið

Lof mér að falla með íslenska landsliðinu

Benedikt Bóas skrifar
Íslenska fótboltalandsliðið var ekki í sama gæðaflokki og Lof mér að falla þegar það steinlá fyrir Sviss.
Íslenska fótboltalandsliðið var ekki í sama gæðaflokki og Lof mér að falla þegar það steinlá fyrir Sviss. Vísir/EPA

Venju samkvæmt horfði íslenska landsliðið í fótbolta á kvikmynd kvöldin fyrir landsleikina gegn Sviss og Belgíu. Horfði liðið á Lof mér á falla fyrir skellinn gegn Sviss en í gær var blásið í gleðilúðrana og settist liðið niður með þáttaröðinni Suðurameríski draumurinn.

Lof mér að falla sló í gegn um helgina á Íslandi og er frumsýning hennar fjórða stærsta opnun frá upphafi á íslenskri kvikmynd og stærsta frumsýningarhelgi á íslenskri mynd síðan 2016 – aðeins Mýrin, Bjarnfreðarson og Eiðurinn hafa þénað meira á frumsýningarhelgi.

Rúmlega 8.300 gestir kíktu á myndina en ekki er vitað hvort þeir sem eru í íslenska hópnum voru taldir með.

Strákarnir voru eðlilega í litlu stuði til að ræða myndina þegar eftir því var leitað í St. Gallen en liðið hefur fengið að njóta margra mynda áður en þær fara í sýningar.

Þannig hefur hópurinn séð Ever­est, Vonarstræti, Borgríki 2 og Undir trénu, svo nokkrar myndir séu nefndar, á undan öllum öðrum.

Auðunn Blöndal, einn af þátttakendum í Suðurameríska draumnum, segir að það sem hann hafi séð af þáttaröðinni lofi virkilega góðu. Þættirnir eru þekktir fyrir mikið grín og mikið gaman þar sem Auðunn, Steindi, Sveppi og Pétur Jóhann sprella á erlendri grundu og ættu því að geta þurrkað skelfinguna í St. Gallen út úr huga landsliðsmanna Íslands.

Landsliðið leikur gegn Belgum í dag en þetta er fyrsti heimaleikur Eriks Hamrén með liðið. Hann sagði þegar hann tók við að hann ætlaði að halda í hefðir og venjur og greinilegt að hann er maður orða sinna.

Undir trénu var sýnd í Finnlandi í fyrra. Hér eru aðalleikararnir Steindi jr., Edda Björgvins og Siggi Sigurjóns.
Lof mér að falla. Baldvin Z leikstjóri og leikkonurnar Elín Sif og Eyrún Björk.
Baltasar Kormákur sýndi strákunum Everest.
Vonarstræti var frumsýnd í Ríga í Lettlandi árið 2014 fyrir landsliðið.
Landsliðið horfði á Borgríki 2 í Tékklandi árið 2014.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.