Innlent

Tveir fluttir á slysadeild vegna bílveltu á Kringumýrarbraut

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Tveir voru fluttir á slysadeild eftir að bíll valt tvær veltur á Kringlumýrarbraut við brúna milli Fossvogs og Hlíða.
Tveir voru fluttir á slysadeild eftir að bíll valt tvær veltur á Kringlumýrarbraut við brúna milli Fossvogs og Hlíða. Vísir/Vilhelm
Tveir voru fluttir á slysadeild eftir að bíll valt tvær veltur á Kringlumýrarbraut við brúna milli Fossvogs og Hlíða. Slökkviliði barst tilkynning um slysið um klukkan 9:45 og voru farþegar komnir út úr bílnum þegar viðbragðsaðila bar að garði.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu virðist sem bíllinn hafi farið tvær veltur en er ekki um að ræða alvarlegt slys en tveir hafi verið fluttir á slysadeild.

Talsverðar umferðartafir hafa verið á Kringlumýrarbraut vegna slyssins og annast lögreglan rannsókn á vettvangi.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni var bifreið ekið aftan á aðra bifreið með þeim afleiðingum að sú síðastnefnda valt. Gerandi ók af vettvangi en var stöðvaður stuttu síðar og handtekinn.

Lögregla hefur lokað Kringlumýrarbraut til suðurs á meðan vinna stendur yfir á vettvangi. Opnað verður þegar þeirri vinnu er lokið.

Uppfært kl. 13:07:

Kringlumýrarbraut er á ný opin fyrir umferð. Um minniháttar slys á fólki var að ræða. Hinn handtekni var laus að skýrslutöku lokinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×