Innlent

Rokkhátíð samtalsins var haldin um helgina

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hátíðin var haldin í Hofi
Hátíðin var haldin í Hofi
Rokkhátíð samtalsins var haldin um helgina í Hofi á Akureyri. Yfir 70 viðburðir voru á dagskrá og var tilgangurinn að efla traust í samfélaginu og auka skilning milli ólíkra hópa.

Hátíðin ber heitið Lýsa, en um er að ræða  tveggja daga hátíð þar sem tilgangurinn er að virkja lýðræðisþáttöku almennings og vera vettvangur þeirra sem vilja ræða málefni samfélagsins. 

„Við vorum með yfir 70 ólíka viðburði á dagskrá þannig það var mjög fjölbreytt úrval sem hægt var að velja úr,“ sagði Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Lýsu. 

Á boðstólnum voru smiðjur, samtöl, pallborðsumræður og fræðslufundir og var markmiðið að efla traust í samfélaginu og auka skilning á milli ólíkra aðila en líka til að fræðast og læra hvert af öðru. 

„Það komu til okkar alþingismenn. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, opnaði hátíðina. Á staðnum voru einnig ráðherrar og alemnningur. Fólk kom inn af götunni. Það var fjölbreytt flóra af fólki sem kom,“ sagði Þuríður. 

Hátíðin sem á sér norræna fyrirmynd, er alltaf haldin utan höfuðborgarinnar þar sem mikilvægt er að mati skipuleggjenda að byggja brýr á milli höfuðborgar og landsbyggðar. 

„Það var gaman að sjá þessi samtöl á milli almennings og þingmanna á göngunum. Fólk var að tengja saman yfir kaffibolla,“ sagði Þuríður.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×