Innlent

Dómar Landsréttar munu teljast bindandi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar

Lektor við lagadeild Háskóla Íslands segir að allir dómar Landsréttar muni teljast bindandi þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að dómaraskipan hafi verið andstæð lögum. Dómana þurfi að bera undir endurupptökunefnd til að þeim verði hnekkt.

Líkt og fram hefur komið hefur Mannréttindadómstóll Evrópu tekið kæru Landsréttarmálsins til meðferðar og krafist skýringa frá íslenska ríkinu. Málið er fordæmalaust hjá dómstólnum og virðist í forfangi það sem einungis er um mánuður síðan kæran barst.

Í málinu sem var kært var er réttmæti skipunar dómara Landsréttar dregin í efa, en þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að dómari taldist ekki vanhæfur, þrátt fyrir að dómurinn hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að skipan dómaranna væri ekki í samræmi við lög. Önnur spurning Mannréttindadómstólsins til íslenskra stjórnvalda snýr einmitt að þessu atriði en í hinni er spurt hvernig atkvæðagreiðslan á Alþingi samrýmist lögum.

Kristín Benediktsdóttir, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands.

Fari svo að Mannréttindadómstóllinn telji skipan dómara við réttinn ólögmæta segir Kristín Benediktsdóttir, lektor í lögfræði, að niðurstaðan hafi engin sjálfkrafa áhrif. „Vegna þess að hann er ekki „automatískt“ bindandi fyrir okkur. Hann er bindandi að þjóðarrétti en hann hann hefur ekki þær afleiðingar að kerfi hrynji sjálfkrafa hérna á Íslandi.“

Niðurstaða Mannréttindadómstólsins kynni ekki að hafa áhrif á dómana sem þegar hafa fallið í Landsrétti. „Þeir eru bindandi eins og allir aðrir dómar,“ segir Kristín og segir að menn þurfi að fara fram á endurupptöku ef menn eru ósáttir við niðurstöðu dómstóla hér á Íslandi.

Um skilyrði til endurupptöku mála er fjallað í lögum um meðferð einka- og sakamála og meta þarf hvert mál fyrir sig telji fólk ástæðu til að véfengja gildi dómanna. Þá myndi dómurinn ekki hafa bein áhrif á skipan dómara við Landsrétt. Kristín bendir á að dómarar á Íslandi séu æviráðnir og ekki vikið nema með lögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×