Erlent

Þingið hafnaði Níkol Pasjinjan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Armenar hafa mótmælt svo vikum skiptir.
Armenar hafa mótmælt svo vikum skiptir. Vísir/EPa
Níkol Pasjinjan, leiðtogi armensku stjórnarandstöðunar, náði ekki að tryggja sér nógu mörg atkvæði á þinginu í gær til þess að tryggja sér forsætisráðuneytið. Fékk hann 45 atkvæði en þurfti 53. Ljóst var því að of fáir stjórnarliðar voru tilbúnir að greiða honum atkvæði.

Stjórnarandstaðan er í minnihluta en í ljósi þess að tugir þúsunda mótmæltu Sersj Sargsjan, þáverandi forsætisráðherra, í apríl með þeim afleiðingum að hann sagði af sér taldi Pasjinjan sigurlíkur sínar ágætar.

Eftir atkvæðagreiðsluna hvatti Pasjinjan mótmælendur og alla sína stuðningsmenn, sem safnast höfðu saman í höfuðborginni Jerevan, til þess að ráðast í herferð borgaralegrar óhlýðni. Þegar Pasjinjan fór til mótmælenda á Lýðveldistorginu tók skarinn vel á móti honum.

„Frá og með 8.15 í fyrramálið skulið þið loka öllum vegum. Ég tilkynni hér með um allsherjarverkfall. Bylting ástar og umburðarlyndis heldur áfram,“ sagði Pasjinjan.


Tengdar fréttir

Karapetjan tekur við af Sargsjan

Karen Karapetjan, fyrsti varaforsætisráðherra Armeníu, er nú starfandi forsætisráðherra eftir að Sersj Sargsjan sagði af sér í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×