Erlent

Úkraínu­menn réðust á olíu­vinnslu en Rússar á fjöl­býlis­hús

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Sapórisjía í Úkraínu, þar sem að minnsta kosti einn lét lífið í árás á fjölbýlishús og að minnsta kosti 22 eru særðir. Árásir voru gerðar víðsvegar um Úkraínu í nótt.
Frá Sapórisjía í Úkraínu, þar sem að minnsta kosti einn lét lífið í árás á fjölbýlishús og að minnsta kosti 22 eru særðir. Árásir voru gerðar víðsvegar um Úkraínu í nótt. AP/Kateryna Klochko

Forsvarsmenn Úkraínska hersins segjast hafa gert árásir á tvær olíuvinnslustöðvar í Rússlandi í nótt. Rússar skutu á sama tíma fjölmörgum eldflaugum og drónum að borgum og bæjum víðsvegar um Úkraínu.

Að minnsta kosti einn er látinn og tugir eru sagðir særðir eftir að Rússar notuðu, samkvæmt Úkraínumönnum, 537 sjálfsprengidróna og tálbeitudróna, átta skotflaugar og 37 stýriflaugar til árása víðsvegar um landið.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, vísar sérstaklega til árásar á fjölbýlishús í Sapórisjía. Hann segir árásirnar að mestu hafa beinst að borgaralegum skotmörkum, eins og íbúðarhúsum og fyrirtækjum.

Hann sagði enn og aftur að þörf væri á frekari refsiaðgerðum gegn Rússlandi, til að sporna gegn sölu Rússa á jarðeldsneyti. Hún væri notuð til að fjármagna stríðsreksturinn í Úkraínu. Orð dugðu ekki til.

Úkraínumenn gerðu í nótt árásir á tvær olíuvinnslustöðvar í Rússlandi. Slíkum árásum hefur farið fjölgandi en eins og áður segir er olíuvinnsla og sala á jarðgasi ein helsta tekjulind rússneska ríkisins.

Þá vilja Úkraínumenn einnig koma niður á birgðum rússneska hersins.

Árásirnar voru gerðar í Krasnodar og Samara í Rússlandi og bentu myndbönd frá því í nótt til þess að á báðum stöðum hafi nokkuð stórir eldar kviknað eftir árásirnar.

Eins og áður segir hefur árásum sem þessum í Rússlandi farið fjölgandi og eru vísbendingar um að þær séu byrjaðar að bíta. Bensínverð hefur náð methæðum í Rússlandi, útflutningur á eldsneyti hefur verið takmarkaður og fregnir hafa borist af löngum biðröðum í austurhluta landsins.

Sjá einnig: Árásir á olíuvinnslu í Rússlandi bíta

Eins og oftast áður hafa Rússar viðurkennt að eldur hafi kviknað í Krasnodar en segja hann hafa kviknað vegna braks úr dróna sem skotinn var niður. Moscow Times segir ríkisstjóra Samara hafa staðfest að árás hafi verið gerð en lítið annað.


Tengdar fréttir

Skutu hver annan fyrir orður og bætur

Rússneskir hermenn úr sérstakri hersveit sem á að vera fyrir einvala hermenn skutu hver annan eða sviðsettu sár í orrustu svo þeir fengju bætur og orður. Að minnsta kosti 35 hermenn hafa verið ákærðir yfir að taka þátt í þessari umfangsmiklu svikamyllu.

Rússum „drullusama“ um friðarumleitanir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir umfangsmiklar loftárásir Rússa á Kænugarð í nótt sýna svart á hvítu að þeir kjósi hernað yfir frið. Ljóst sé að Rússum sé „drullusama“ um friðarumleitanir Bandaríkjaforseta og annarra vestrænna ríkja.

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Friður enn fjarlægur og Trump missir móðinn

Friður í Úkraínu virðist enn ekki á sjóndeildarhringnum þótt að nýtt líf hafi færst í viðræður í tengslum við fund Donalds Trump og Vladimírs Pútín, forseta Bandaríkjanna og Rússlands. Pútín virðist hafa sagt eitthvað annað við Trump en sá síðarnefndi heyrði. Á meðan heldur hæg framganga Rússa á víglínunni í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×