Bíó og sjónvarp

Eggert tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir Dunkirk

Birgir Olgeirsson skrifar
Eggert Ketilsson var meðal þeirra sem sá um gerð leikmyndar kvikmyndarinnar Dunkirk.
Eggert Ketilsson var meðal þeirra sem sá um gerð leikmyndar kvikmyndarinnar Dunkirk. IMDB
Seinni heimsstyrjaldarmyndin Dunkirk er tilnefnd til átta Óskarsverðlauna en Íslendingurinn Eggert Ketilsson er hluti af teyminu sem tilnefnt er fyrir leikmynd hennar.

Leikstjóri myndarinnar er Christopher Nolan en þetta er þriðja Nolan-myndin sem Eggert starfar við. Dunkirk fjallar um Operation Dynamo sem snerist um að flytja 340 þúsund hermenn Bandamanna við Dunkirk í Frakklandi, yfir Ermarsundið til Bretlandseyja.

Eggert vann fyrst með Nolan þegar Batman Begins, sem kom út árið 2005, var tekin upp að hluta hér á landi við Svínafellsjökul. Hann sá um listræna stjórnun á tökustað myndarinnar sem og Interstellar eftir Christopher Nolan sem kom út árið 2014. Hún var sömuleiðis tekin upp að hluta við Svínafellsjökul.

Það má því með sanni segja að samstarf þeirra hafi gengið vel.

Átta mánaða ferli

„Ég sá um listræna stjórnun og framkvæmdir á leikmyndinni í Dunkirk,“ segir Eggert í samtali við Vísi sem var í átta mánuði við vinnu í Evrópu fyrir myndina.

Reisa þurfti bryggjuna The Mole sem var í stóru hlutverki í myndinni.IMDB/Warner Bros
Þegar tilkynnt var að Dunkirk hefði hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leikmynd voru aðeins tveir menn tilteknir, þeir Nathan Crowley og Gary Fettis, en Eggert segir að í raun sé allt teymið sem sá um framkvæmd á leikmyndinni tilnefnt.

Viðstaddur verðlaunahátíð í Bandaríkjunum

Eggert er á leið til Bandaríkjanna til að vera viðstaddur verðlaunaafhendingu Art Directors Guild of America, eða félag listrænna stjórnenda í Bandaríkjunum, en ef Dunkirk fær verðlaun þar fyrir leikmynd mun Eggert taka við þeim verðlaunum. Verðlaunaafhendingin fer fram 27. janúar næstkomandi.

Dunkirk er einnig tilnefnd til verðlauna fyrir leikmynd á Satelite Awards, sem félag erlendra blaðamanna veitir á hverju ári, en sú verðlaunaafhending fer fram 11. febrúar næstkomandi.

Myndin er einnig tilnefnd til bresku kvikmyndaverðlaunanna, BAFTA, fyrir leikmynd sem verða afhent 18. febrúar næstkomandi.

Óvissa með Óskarinn vegna anna

Óskarsverðlaunin sjálf fara fram 4. mars næstkomandi en Eggert á ekki von á því að vera viðstaddur herlegheitin í Hollywood þar sem hann verður upptekin við önnur störf. Annars vegar er hann listrænn stjórnandi fyrir norsku kvikmyndina Amundsen og að hanna leikmynd fyrir Flateyjargátuna.

Eggert býst ekki við að verða viðstaddur Óskarsverðlaunaafhendingu sökum anna.Vísir/Getty
Interstellar var einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leikmynd en Eggert segir Dunkirk vera langstærsta verkefni síns ferils.

Hann segir samstarfið við Nolan hafa gengið mjög vel og segir leikstjórann og eiginkonu hans Emmu Thomas hið vænsta fólk. Eggert segir engar Hollywood-stórmyndir á döfinni hjá sér á næstunni, en mögulega mun hann starfa við næstu mynd Nolans.

Risastórt verkefni en fjármagni og tíma naumt skammtað

Hann ritaði mikla grein um vinnu sína við Dunkirk í tímariti Art Directors Guild of America sem heitir Perspective.

Þar segir hann frá því þegar vinnan við að finna tökustaði og hanna leikmyndina hófst í janúar 2016. Verkefnið var risastórt en á móti var fjármagn og tími af skornum skammti.

Eggert talar um hvernig aðstandendur myndarinnar þurftu að taka myndina upp í góðu samstarfi við íbúa Dunkirk þannig að það truflaði ekki þeirra daglega líf of mikið.

Þúsundir pappahermanna

Fyrir myndina þurfti að búa til þúsundir hermanna úr pappa til að láta ströndina líta út fyrir að vera troðna af hermönnum. Í greininni segir Eggert að það hafi virkað í mynd með því að láta pappahermennina vera í tæplega hundrað metra fjarlægð frá tökuvélunum og láta aukaleikara vafra í kringum þá. Þá voru ýmis farartæki á landi gerð úr pappa og einnig skip til að taka upp myndina.

Þúsundir pappahermanna voru notaðir við tökur myndarinnar.IMDB/Warner Bros
Franski bærinn Dunkirk hefur tekið einhverjum breytingum frá seinni heimsstyrjöldinni en þó þurfti merkilega litlu að breyta.

Ráðstefnuhúsi breytt í sementsverksmiðju

Ein nýbygging vafðist þó aðeins fyrir en það er ráðstefnuhúsið Kursaal sem er nútímabygging. Ákveðið var að endurhanna ytra byrði hússins sem sementsverksmiðju og þurfti fimm vikur til að klára þá framkvæmd.

Bryggjan The Mole var í stóru hlutverki í þessari mynd og þurfti að reisa hana fyrir myndina. Verkið tók tólf vikur en kvikmyndagerðarmönnunum varð snemma ljóst að Dunkirk er afar vinsæll staður fyrir siglingasport sökum þess hve vindasamt getur verið þar.

Stóðu þeir því frammi fyrir því að hvassviðri og öldugangur gæti eyðilagt leikmyndina þar sem vindhviður náðu allt að 40 metrum á sekúndu. Farið var í prófanir til að athuga hve mikið leikmyndin þoldi til að standa af sér og tók það einhvern tíma.

Velvild fólksins skiptir máli

Í greininni segir Eggert að vinnan við þessa mynd hafi verið afar ánægjuleg. Hann segir að það hefði reynst leikmyndarteyminu erfitt fyrir að skapa veröld fyrir áhorfendunum ef það hefði ekki notið stuðnings frá íbúum á þeim stöðum sem myndin var tekin upp.

„Við þrífumst á hæfileikaríku kvikmyndagerðarfólki, almenningi og yfirvöldum þessara staða sem nálgast verkefnið með opnum hug og eru tilbúin til að veita því stuðning.“

Eggert hefur komið víða við á löngum ferli og hefur meðal annars unnið við stórmyndir á borð við The Last Knight, Star Wars: The Force Awakens og Rouge One úr Stjörnustríðsseríunni, Thor: The Dark World, Oblivion, Prometheus, Bond-myndinni Die Another Day og Journey to the Center of the Earth.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.