Uppselt er á ferna tónleika en enn eru nokkrir miðar til á tónleikana á morgun. Það má því reikna með að um 7.200 manns muni mæta en Eldborg tekur 1.800 manns. Þetta er í annað sinn sem hljómsveitirnar leiða saman hesta sína en auk þeirra verða Karlakór Reykjavíkur, kammerkórinn Hymnodia og Barnakór Kársnesskóla með þeim á sviðinu.
„Hér þurfa allir að vera klárir og þá er gott að eiga bestu sinfóníuhljómsveit í heimi. Við pössuðum okkur á að vera búnir að æfa alveg í drep og erum búnir að vera í miklu sambandi við Harald Sveinbjörnsson sem útsetur þetta allt saman, þannig að við erum með okkar parta alveg á hreinu.

Talið verður í fyrstu tónleikana annað kvöld klukkan 20. Fram að því verður æft og örlítil atriði löguð til en Bernharður Wilkinson mun stýra öllu því sem fram fer á sviðinu. „Mikið ofurmenni, hann Bernharður. Hann er með eitthvað sem við hinir höfum ekki. Fordómalaus, svo grjótharður, en á sama tíma alveg ofboðslega almennilegur.“
Snæbjörn segist varla geta beðið eftir að telja í annað kvöld fyrir framan fullan sal af fólki. „Án þess að maður sé að ýkja, þá er þetta einn af hápunktum ævi manns. Það er bara þannig. Hvað er stærra sem tónlistarmaður? Ég veit ekki hvað það ætti að vera. Það toppar ekkert að fá börnin sín í þennan heim en þetta er stutt þar á eftir.“