Erlent

Norðmenn vöruðu Svía við heimsókn Listhaug

Atli Ísleifsson skrifar
Sylvi Listhaug, hér fyrir miðju, á ráðherrafundi í Brussel á síðasta ári.
Sylvi Listhaug, hér fyrir miðju, á ráðherrafundi í Brussel á síðasta ári. Vísir/EPA
 

Norska utanríkisráðuneytið varaði í síðustu viku sænsk stjórnvöld við að annarleg sjónarmið kynnu að leggja að baki heimsókn Sylvi Listhaug, innflytjendamálaráðherra Noregs, til Svíþjóðar. Frá þessu greinir Aftonbladet.

Listhaug var á leið til Stokkhólms í dag þegar ráðherra innflytjendamála Svíþjóðar, Heléne Fritzon, aflýsti fyrirhuguðum fundi ráðherranna.

Ónafngreindur heimildarmaður Aftonbladet innan sænska utanríkisráðuneytisins segir að starfsmenn norska utanríkisráðuneytisins hafi sagt fyrirætlan Listhaug vera ranga og að mögulegt kynni vera að hún myndi nýta heimsóknina í vafasömum tilgangi.

Listhaug ferðaðist til Stokkhólms fyrr í dag þar sem hún hugðist meðal annars heimsækja úthverfið Rinkeby, þar sem hlutfall innflytjenda er mjög hátt og mikið er um félagsleg vandamál.

Eftir að hafa aflýst fundinum sagðist Fritzon ekki vilja þátttakandi í kosningabaráttu Listhaug, en þingkosningar fara fram í Noregi þann 11. september næstkomandi. Sagði Fritzon að Listhaug væri ekki að draga upp rétta mynd af landinu.

Listhaug er ráðherra Framfaraflokksins og er þekkt fyrir þá hörðu og ströngu afstöðu sem hún hefur tekið í umræðum um innflytjendamál.

NRK segir að norska forsætisráðuneytinu sé ekki kunnugt um að utanríkisráðuneytið hafi varað við heimsókn norska ráðherrans.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.