Innlent

Ekkert lát á kókaínflóði

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Mikið magn kókaíns hefur fundist í Leifsstöð.
Mikið magn kókaíns hefur fundist í Leifsstöð. vísir/andri marinó
Tollgæslan á Kefla­víkurflugvelli hefur lagt hald á hátt í 31 kíló af fíkniefnum sem reynt hefur verið að smygla til landsins það sem af er ári. Kókaín er þar langalgengast en haldlögð hafa verið 23,5 kíló af því það sem af er ári. Það er ríflega einu og hálfu kílói meira en lagt var hald á af kókaíni á landinu öllu árin fjögur þar á undan.

Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því í sumar að fyrstu sjö mánuði ársins hefði tollgæslan lagt hald á 20,7 kíló af kókaíni sem er meira magn en haldlagt hefur verið á þessari öld. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu nú hafa fimm smyglmál komið upp síðan þá þar sem hald hefur verið lagt á rúmlega 2,8 kíló af kókaíni til viðbótar auk met­amfetamíns og ecstasy.

Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að það sem af er ári hafi hald verið lagt á ríflega 30,9 kíló af fíkniefnum af ýmsum gerðum.

Fréttablaðið hefur áður fjallað um að lögreglumenn verða meira varir við kókaín nú en oft áður. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við blaðið í ágúst síðastliðnum að það væri meira kókaín í umferð nú en áður. Notkun þess væri ákveðinn góðærismælikvarði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×