Innlent

Leiðtogakjör Sjálfstæðisflokksins í lok janúar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðismanna.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðismanna.
Samþykkt var á fjölmennum félagsfundi Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, í gærkvöldi að leiðtogaprófkjör vegna borgarstjórnarkosninganna á næsta ári, skuli fara fram 27. janúar næstkomandi.

Þar munu flokksmenn velja oddvita framboðslistans en síðan mun fulltrúaráðið velja í önnur sæti á listanum. Í tilkynningu frá fulltrúaráðinu segir að mikill einhugur hafi verið um þessa tillögu.
 
Enn hefur enginn lýst því yfir að hann hyggist sækjast eftir oddvitasætinu. Núverandi oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, Halldór Halldórsson, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu.

Stefnt var að leiðtogakjöri í október eða nóvember en því var frestað vegna alþingiskosninganna. Haft er eftir Gísla Kr. Björnssyni, formanni Varðar, í Morgunblaðinu í dag að þátttaka verði með sama sniði og í síðustu prófkjörum, flokksbundnir Sjálfstæðismenn kjósi.

Auglýst hefur verið eftir framboðum í kjörnefnd.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×