Lífið

Skotheld kaffihúsaráð fyrir hundaeigendur

Guðný Hrönn skrifar
Heiðrún Klara er hundaþjálfari og hunda­atferlisfræðingur hjá HundaAkademíunni.
Heiðrún Klara er hundaþjálfari og hunda­atferlisfræðingur hjá HundaAkademíunni. vísir/ERNIR
Í tilefni þess að veitinga- og kaffihúsum á Íslandi, sem uppfylla ákveðin skilyrði, er nú heimilt að bjóða hunda og ketti velkomna í heimsókn setti Heiðrún Klara Johansen, hundaþjálfari og hunda­atferlisfræðingur, nokkur góð ráð saman fyrir lesendur. Hún segir mikilvægt að fólk undirbúi hundana sína vel áður en það fer með þá af stað í kaffihúsaferð.

1. Mikilvægi umhverfisþjálfunar

Hundurinn þarf að vera vel umhverfisþjálfaður. Það þýðir að hann þarf að vera vanur að fara á nýja staði og hann þarf að geta verið rólegur í þeim aðstæðum. Ef hann er ekki vanur er gott að venja hann við með því að fara í heimsóknir til vina og ættingja.

2. Slökun

Hundurinn á að vera í slökun á kaffihúsi. Kaffihús er ekki leiksvæði fyrir hundinn og á hann því að vera rólegur og slappa af. Fín leið til þess að ná slökun er að halda um axlir og tala rólega til hans. Hægt er að strjúka eða nudda axlir til að losa um spennu. Mikilvægt er að vera róleg/ur sjálf/ur til þess að smita frá sér ró í hundinn. (sjá slökunaræfingu fyrir neðan)

3. Væntingastjórnun

Þeir sem hafa séð hunda í útlöndum, á kaffihúsum, í verslunarmiðstöðvum og í strætó/lest sjá að þar eru hundarnir rólegir og allir láta þá vera. Þetta er ákveðin væntingastjórnun, hundarnir læra að í þessum aðstæðum fái þeir enga athygli og þá fara þeir að slappa af. Venjum því hundinn á að hann fái litla sem enga athygli á kaffihúsum. Hann fái ekki að heilsa öllum og ekki leyfa öllum að klappa hundinum, því það gæti mögulega verið erfiðara fyrir hann. Þá getur verið sniðugt að staðsetja hundinn undir eða á bak við stólinn þinn þannig að fólk komist ekki eins auðveldlega að honum. Athugið að ekki vilja allir hundar fá klapp frá ókunnugum.

4. Taktu ábyrgð á hundinum

Hundurinn má ekki merkja (pissa). Þeir hundar sem eru líklegir til þess þurfa að vera með svokallað rakkabindi um mittið (ef slys verður þarft þú strax þrífa upp, ekki ætlast til þess að starfsfólk þrífi eftir þig). Athugið að algengt stress-merki er að hundar pissi/kúki. Ef hundurinn er að væla mikið, gelta eða er órólegur, þá er best að fara með hann burt af staðnum og æfa hann svo betur í umhverfisþjálfun, kenna honum að vera rólegur í svona aðstæðum áður en þið reynið aftur.

5. Merkjamál hunda

Kynntu þér merkjamál hunda til að geta lesið hundinn og vitað hvort honum líður vel í þessum aðstæðum. Virtu persónulegt rými hundsins og ef honum virðist ekki líka að vera nálægt ókunnugu fólki þá skaltu staðsetja hann þannig að þú sért á milli.

Algeng merki sem gefa til kynna að hundinum líði ekki vel„Hundurinn er órólegur, hlustar ekki á þig, másandi út að eyrum, vælinn, stífur í líkamanum, geispar mikið, augun stærri en venjulega, hrukkur í andlitinu, virðist „þreytulegur í andlitinu“. Sumir hundar geta virkað mjög rólegir þegar þeim líður ekki vel, þeir geta reynt að fela sig undir stól eða bak við þig, vera stirðir, titra, líta undan, snúa höfðinu eða sleikja mikið  út um ef reynt er að tala við þá  eða klappa. Aðrir hundar gelta  meira þegar þeir eru hræddir  eða stressaðir,“ segir Heiðrún.

„Það er mikilvægt að hundaeigandi viti hvað þeirra hundur  getur og það eru því miður ekki allir hundar tilbúnir að  fara á kaffihús.“

„Ef þig grunar að  honum líði ekki vel þarftu að fara með hann heim.“

Slökunaræfing með nammi„Það er hægt að móta hundinn til að slaka á með því að nota nammi. En þá skiptir það miklu máli hvernig þú notar nammið svo hann sé ekki bara að stara á þig og bíða eftir næsta nammibita. Hér er dæmi um slökunaræfingu.“

Athugið að þessi æfing er hljóðlaus, fyrir utan rólegt hrósorð þegar þú gefur nammið. Ekki ná augnsambandi við hundinn, heldur horfðu aðeins til hliðar við hundinn.

Sittu á stól. Hafðu hundinn í taumi. Vertu með nammi í hendi. Nú er hundurinn alveg örugglega kominn til þín og er að bíða eftir að fá nammið. Ef hann sýnir óæskilega hegðun, sem við oft köllum „frekjuhegðun“, vælir, krafsar eða heimtar nammið þarftu að bíða þangað til hann hættir því.

Um leið og hann þegir gefur þú honum nammi. Þannig kennir þú honum að bíða þolinmóður áður en æfingin byrjar.

Þegar hann situr fyrir framan þig og bíður eftir nammi, bíður þú eftir því að hann horfi ekki á þig. Þegar hann lítur til hliðar eða niður setur þú nammi á gólfið milli framfóta hans. Það er fínt að hrósa mjög rólega í þessari æfingu og gefa nammi með rólegri hreyfingu.

Ástæðan fyrir því að við setjum nammið á milli framfóta hans er að við erum að móta hann í að liggja og þá er sniðugt að gefa nammið þar sem við viljum hafa hundinn. Hundar átta sig á þessu og vilja þá vera þar sem nammið birtist. Þetta er endurtekið oft.

Vonin er sú að fljótlega fari hann að liggja og bíða eftir namminu á gólfinu þar sem það birtist alltaf. Við erum að leyfa honum að uppgötva sjálfur að það borgi sig að leggjast og slappa af þegar ekkert er að gerast.

Þegar hann er farinn að skilja að það borgar sig að vera rólegur máttu byrja að lengja á milli þess sem hann fær nammið.

Þessa slökunaræfingu er gott að æfa á stól við borð svo það líkist kaffihúsi. Ég mæli með að æfa í 10 mínútur í senn, einu sinni, tvisvar eða þrisvar á dag þar til hann skilur æfinguna.

Það getur verið að hundurinn þurfi marga nammibita á stuttum tíma til að byrja með, þess vegna þurfa bitarnir að vera mjög litlir og auðveldir að tyggja eða helst gleypa. Síðan má minnka nammið þegar hundurinn er orðinn vanur því að liggja slakur. Þá er bestað gefa nammi stundum og stundum ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×