Innlent

Handtóku par grunað um margvísleg afbrot

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Afbrot parsins eru af margvíslegum toga.
Afbrot parsins eru af margvíslegum toga. VÍSIR/EYÞÓR
Lögreglan handtók par í húsnæði í Súðarvogi á öðrum tímanum í nótt. Ekki er greint frá því í dagbók lögreglunnar hvað varð til þess að parið var handtekið en er það sagt grunað um „húsbrot, þjófnað, vörslu fíkniefna, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna ofl.“ Var það því flutt í fangageymslu lögreglunnar meðan málið er rannsakað frekar.

Fleiri voru fluttir í fangaklefa í nótt. Þeirra á meðal var ofurölvi ferðamaður sem ráfaði um Austurstræti. Að sögn lögreglunnar gat hann ekki tjáð laganna vörðum hvar hann héldi til og því var ákveðið að láta hann sofa úr sér á Hverfisgötu.

Ökumaðurinn sem ók á ljósastaur í Ártúnsbrekku slapp þó við fangaklefavist. Tildrög slyssins eru ókunn en engin meiðsl urðu á fólki. Öryggispúðar bifreiðarinnar sprungu út og var bifreiðin flutt burt af vettvangi með dráttarbifreið. Til að tryggja að ljósastaurinn myndi ekki falla saman og valda meira tjóni kallaði lögreglan á Orkuveituna til að liðsinna sér í að tryggja staurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×